Viðskipti innlent

Borgin gerir ráð fyrir 100 milljarða tekjum 2011

Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að tekjurnar á næsta ári nemi rétt tæpum 100 milljörðum kr., Það er þegar A og B hluti reksturs borgarinnar eru lagðir saman. Rekstrartekjur A hluta, það er borgarsjóðs, eru áætlaðar tæplega 60 milljarðar kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 er til fyrri umræðu í borgarstjórn í dag, þriðjudaginn 30. nóvember. Síðari umræða um frumvarpið verður 14. desember nk.

Samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir að afgangur af rekstri A og B hluta nemi 3,4 milljörðum kr. og að handbært fé í árslok muni nema 17,4 milljörðum kr. Eignir borgarinnar (A og B hluti) nemi þá rúmlega 471 milljarði kr. Langtímaskuldir nemi 272 milljörðum kr. og skammtímaskuldir 29 miljörðum kr.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A hluta og B hluta. Til A hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og Eignasjóð.

Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×