Viðskipti innlent

Kaupþing sýslaði grimmt með gjaldeyrinn rétt fyrir hrun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kaupþing voru duglegir að versla með gjaldeyrinn rétt fyrir hrun.
Kaupþing voru duglegir að versla með gjaldeyrinn rétt fyrir hrun.

Á þriggja mánaða tímabili, ári fyrir hrunið, keyptu fimm fyrirtæki alls 1,4 milljarða evra í framvirkum samningum af Kaupþingi. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að þessi gjaldeyrisviðskipti kunni að falla undir markaðsmisnotkun og hefur vísað málinu til sérstaks saksóknara.

Þegar framvirkir gjaldeyrissamningar Kaupþings eru skoðaðir sést að viðskiptavinir Kaupþings voru heldur að taka stöðu með krónunni, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þegar staða einstakra aðila er skoðuð sést að það eru fyrst og fremst íslenskir lífeyrissjóðir sem seldu gjaldeyri en á kauphliðinni voru fimm fyrirtæki sem keyptu mest. Þetta voru Exista Trading ehf., Kjalar hf., Baugur Group hf., Jötunn Holding ehf. og Eignarhaldsfélagið ISP ehf.

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu þessi fimm fyrirtæki tæplega 1,4 milljarða evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluta þess gjaldeyris keyptu þau af Kaupþingi.

Þar sem þessi viðskipti voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja vísaði rannsóknarnefndin málinu til ríkissaksóknara þar sem grunur leikur á að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða.

Samningar þessara félaga eru gerðir í desember 2007 og janúar 2008 og kunna þeir, a.m.k. að hluta til, að skýra umsvifamikil kaup Kaupþings á gjaldeyri í stundarviðskiptum á þessu tímabili.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×