Viðskipti innlent

Greining spáir 8,5% verðbólgu í mars

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í mars. Gangi spáin eftir hækkar verðbólga úr 7,3% í 8,5%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að áhrif útsöluloka eiga drýgstan þátt í hækkuninni nú og gætu þau orðið öllu meiri að þessu sinni en oft áður, bæði vegna þess hversu útsölur voru djúpar í ársbyrjun og eins vegna þess hversu hægt hefur á veltu með varanlegar- og hálfvaranlegar neysluvörur. Síðarnefndu áhrifin koma fram í að seljendur fatnaðar, tækja og húsbúnaðar eru í sumum tilfellum fyrst nú eftir útsölur að stilla út nýjum varningi sem keyptur er inn á núverandi gengi.

„Í heild teljum við að þessi áhrif vegi til 0,45% hækkunar VNV í mars," segir í Morgunkorninu.

Reiknuð húsaleiga í VNV kom flestum á óvart í febrúar þar sem liðurinn, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, stóð í stað eftir snarpa lækkun í upphafi árs.

„Við teljum að þessi liður muni lækka lítillega í mars og að húsnæðisliður VNV, sem alls vegur ríflega fjórðung í vísitölunni, muni að sama skapi vega til tæplega 0,1% lækkunar hennar í mánuðinum. Af öðrum stórum liðum eru áhrif ferða- og flutningaliðarins mest í spá okkar, en við teljum að hækkun eldsneytisverðs, flugfargjalda og verðs á nýjum ökutækjum muni samanlagt vega til 0,15% hækkunar á VNV. Aðrir liðir hafa minni áhrif en munu flestir þokast lítillega upp að mati okkar," segir í Morgunkorninu.

„Að fyrsta ársfjórðungi loknum eru horfur á að draga fari úr verðbólgu að nýju. Þannig spáum við 0,9% hækkun VNV á öðrum fjórðungi ársins, og á seinni helmingi ársins mun vísitalan aðeins hækka um 1,1% ef spá okkar gengur eftir. Verðbólgan mun því ganga niður jafnt og þétt og gerum við ráð fyrir að hún verði komin niður undir 3,5% í lok árs. Nokkurt bakslag gæti hins vegar komið í þessa þróun í upphafi næsta árs ef óbeinir skattar verða hækkaðir frekar um næstu áramót eins og margt bendir til að verði raunin."

Greiningin segir að áhrif hækkunar óbeinna skatta um næstu áramót verði væntanlega skammvinn, enda leggst flest á eitt að halda aftur af verðbólguþrýstingi þessa dagana. Krónan hefur verið í hægum styrkingarfasa og bendir margt til þess að svo verði enn um sinn.

„Þá er launaþrýstingur lítill enda mikill og vaxandi slaki á vinnumarkaði. Fasteignaverð mun einnig halda áfram að lækka að mati okkar. Því bendir fátt til annars, gefi krónan ekki skyndilega eftir, en að verðbólguþrýstingur næstu misserin gæti orðið minni en raunin hefur verið í íslensku hagkerfi frá seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×