Innlent

Hefðu viljað meira samstarf

Guðfinnur Sölvi Karlsson, eigandi Priksins, og Ófeigur Friðriksson, eigandi Hverfisbarsins, funduðu í gær um samþykkt borgarráðs. Þeir eru í forsvari fyrir Félag kráareigenda. Fréttablaðið/Vilhelm
Guðfinnur Sölvi Karlsson, eigandi Priksins, og Ófeigur Friðriksson, eigandi Hverfisbarsins, funduðu í gær um samþykkt borgarráðs. Þeir eru í forsvari fyrir Félag kráareigenda. Fréttablaðið/Vilhelm
Veruleg óánægja er innan Félags kráareigenda með skort á samráði við ákvarðanatöku Reykjavíkurborgar um styttingu á afgreiðslutíma áfengisveitingastaða. Félagar í Félagi kráareigenda, sem var stofnað árið 2007, eru veitingamenn í miðbæ Reykjavíkur. „Við sjáum ekki alveg hverju þetta á að breyta,“ segir Guðfinnur Sölvi Karlsson, eigandi Priksins. „Hætta allir að lemja fólk eftir hálffimm?“

Samþykkt var á fundi Borgarráðs Reykjavíkur á miðvikudag að afgreiðslutími áfengisveitingastaða í miðborginni, þar sem heimilaður hefur verið lengri veitingatími áfengis um helgar, yrði styttur um klukkustund í tveimur áföngum. Um næstu áramót verður afgreiðslutíminn styttur um hálftíma, til klukkan 5 um morgunn og svo aftur um hálftíma að sex mánuðum liðnum, til klukkan 4.30. Að ári liðnu á svo að fara yfir reynsluna af breytingunni og leggja mat á áhrif hennar.

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, segir samþykktina rökrétt framhald vinnu í nefnd um endurskoðun opnunartíma skemmtistaða. „Um málið var gerð skýrsla og fullt af aðilum sem voru til boðaðir voru til samráðs. Síðan varð ofan á að gera þetta svona,“ segir hann.

Kormákur Geirharðsson, veitingamaður á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, segir þessa ákvörðun um styttingu afgreiðslutíma ef til vill vera næst því sem veitingamenn geti mögulega sætt sig við. Um leið kveður hann ráðist að vandamálinu á röngum stað með því að einblína á afgreiðslutímann.

„Vandamálið er að löggæsla hefur snarminnkað í miðbænum,“ segir Kormákur og kveður fólk munu halda sér vakandi sjálft eins lengi og það vilji, hvar sem það aftur verði. „Ef framtíðin er að koma þessu aftur í heimahúsin, þá verður bara svo að vera.”

Guðfinnur tekur í svipaðan streng. Hann segir ýmis teikn á lofti um jákvæðari þróun skemmtanahalds inni á veitingastöðunum, en telur ólíklegt að fólk hætti að slást eða láta illa þótt stöðum sé lokað fyrr. Hann kallar eftir enn meira samstarfi við Félag kráareigenda við að koma á úrbótum, enda þekki fáir jafn vel við hvað sé að eiga.

olikr@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×