Innlent

Auðveldar neytendum verðsamanburð

Fjarskiptamarkaðurinn er frumskógur í huga margra og hefur Póst og fjarskiptastofnun því hleypt af stokkunum reiknivél til að auðvelda neytendum verðsamanburð.

Reiknivélina er að finna á reiknivél.is og er þar hægt að bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir heimasíma, farsíma og nettengingar, með tilliti til notkunar hvers og eins. Póst og fjarskiptastofnun hefur lengi gert mánaðarlegan verðsamanburð hjá fjarskiptafyrirtækjunum og birt á heimasíðu sinni. Með reiknivélinni er reynt að efla þá þjónustu.

„Þetta er í raun og veru ein leið til að gera þennan flókna markað gegnsærri fyrir hinn almenna neytenda. Við vitum að mörgum þykir þetta vera mikill frumskógur. Það er mikil þörf í samfélaginu fyrir fólk að átta sig á því hvað kostar að vera til," segir Anna Margrét Sigurðardóttir, kynningarfulltrúi Póst og fjarskiptastofnunar. „Fjarskipti eru ekki lengur munaður. Þau eru nauðsyn."

Kristján Möller, samgönguráðherra, líst vel á reiknivélina. Honum þykir merkilegt að lénið reiknivél.is var laust og telur að það segi ýmislegt um stöðu neytendaverndar á Íslandi. Hann segir brýnt að neytendur geri verðsamanburð og leiti eftir bestu tilboðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×