Viðskipti innlent

Úrskurðarnefnd telur hættu á að bankar raski samkeppni

Séu ekki settar skorður við langvarandi eignarhaldi lánardrottna á borð við banka á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði skapast ýmis konar hætta á röskun á samkeppni. Þetta er mat úrskurðarnefndar um samkeppnismál.

Þetta kemur fram í úrskurði nefndarinnar vegna samruna Vestia, eignarhaldsfélags Landsbankans, og Teymis. Úrskurðarnefndin hefur fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, og leggur fyrir eftirlitið að setja skilyrði fyrir samrunanum.

Sú röskun sem getur orðið vegna langvarandi eignarhalds bankanna getur strítt gegn markmiði samkeppnislaga, og þar með hagsmunum neytenda, ef fyrirtæki getur athafnað sig á markaði án eðlilegs aðhalds frá lánardrottnum sínum og eiganda, segir í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar.

„Telja verður að fjárhagslegur styrkur eigandans skipti hér máli og „þol" hans til að bíða með að fá fjármagn sitt til baka þar til önnur fyrirtæki á sama markaði hafa eftir atvikum veikst eða helst úr lestinni," segir í úrskurðinum.

Ljóst er að hagsmunatengsl banka liggja víða og ýmis vandamál skapast vegna þeirra miklu upplýsinga sem bankarnir búa yfir um samkeppnisaðila, og eftir atvikum viðskiptamenn á markaði, segir þar enn fremur.

Þá verði ekki horft fram hjá því að bankarnir séu stórir viðskiptavinir á þjónustumörkuðum og í núverandi ástandi séu mörg félög þeim tengd. Því geti skapast hætta á „óeðlilegum gerningum" og misnotkun á þeirri aðstöðu,

Úrskurðarnefndin telur mögulegt að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum langvarandi eignarhalds banka á fyrirtækjum á samkeppnismarkaði með mótvægisaðgerðum áður en af samrunanum verður.

Til dæmis megi gera fyrirtækjunum skylt að starfa eins sjálfstætt og unnt sé, og að þeim verði ráðstafað innan eðlilegs tíma.

Samruni Teymis og Vestia gekk í gegn eftir nauðasamninga á síðasta ári án athugasemda Samkeppniseftirlitsins. Síminn kærði niðurstöðu eftirlitsins til úrskurðarnefndar um samkeppnismál, sem nú hefur úrskurðað fyrirtækinu í hag.- bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×