Innlent

Biður kröfuhafa afsökunar

Kröfuhafar Glitnis eru mjög ósáttir vegna dóms Hæstaréttar í gengislánamálinu, að sögn formanns skilanefndar Glitnis.Fréttablaðið/Stefán
Kröfuhafar Glitnis eru mjög ósáttir vegna dóms Hæstaréttar í gengislánamálinu, að sögn formanns skilanefndar Glitnis.Fréttablaðið/Stefán
„Ég get ekki annað en beðið kröfuhafa afsökunar. Maður getur ekki verið stoltur þegar lagasetning á lánafyrirkomulagi sem hefur viðgengist í níu ár er dæmd ólögmæt,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.

Skilanefndin hefur kannað réttarstöðu sína eftir dóm Hæstaréttar fyrir rúmum hálfum mánuði og hefur skoðað grundvöll þess að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu vegna forsendubrests í samningum. Við flutning á eignum Glitnis til Íslandsbanka var ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna ólögmætra gengistryggðra lána. Skilanefnd Kaupþings er í sömu sporum, að sögn fréttastofu Stöðvar 2. Skilanefnd Glitnis á 95 prósenta hlut í Íslandsbanka en skilanefnd Kaupþings á 87 prósenta hlut í Arion banka.

Árni bendir á að kröfuhafar Glitnis hafi tapað á milli fimmtán hundruð til tvö þúsund milljörðum króna á falli bankans og séu mjög ósáttir.

Skilanefndin hefur reiknað út hugsanlegan kostnað bankans í tengslum við dóm Hæstaréttar og miðast hann við ýmsar hugsanlegar niðurstöður. Árni segir erfitt að gefa upp tölur. Það geti orðið dýrkeypt komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ólögmæt gengislán nái til íbúðalána og fyrirtækjalána og láti samningsvexti standa. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×