Innlent

Lítil fjölgun kvenna í sveitarstjórnum

192 konur voru kjörnar í sveitarstjórnir um helgina en 320 karlar. Hlutur kvenna er því 37,5 prósent og eykst um 1,5 prósentustig á milli kosninga, var 36 prósent fyrir fjórum árum.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir það óneitanlega vonbrigði að hlutur kvenna hafi ekki aukist meira en raun bar vitni. Hún segir jákvætt að hann þokist í rétta átt en markmiðið hljóti að vera að hlutur kvenna sé jafn hlut karla.

Hlutfall kvenna var hærra í þeim 54 sveitarfélögum þar sem voru listakosningar eða 40,5 prósent. Í átján sveitarfélögum voru óhlutbundnar kosningar sem þýðir að allir í sveitarfélaginu voru í kjöri. Þar var hlutur kvenna 35 prósent. Í fjórum sveitarfélögum var sjálfkjörið, en í þeim var stillt upp einum lista. Þar voru níu konur kjörnar í sveitarstjórnir af 20 eða 45 prósent.

„Þessar niðurstöður eru að vissu leyti eftir bókinni, það hefur verið tilhneiging til þess að hlutur kvenna sé betri í stærri sveitarfélögum en verri í þeim smærri, ekki síst er hann verri þar sem eru óhlutbundnar kosningar," segir Kristín.

Konur eru meirihluti fulltrúa í 11 af 76 sveitarfélögum á landinu en karlar í 65 sveitarfélögum. Karlar eru einráðir á einum stað á landinu, í Akrahreppi í Skagafirði. Þar var óhlutbundin kosning og fimm karlar kjörnir í hreppsnefnd.

Hlutfall kvenna er hæst í Reykjavík þegar landið er skoðað eftir kjördæmum, 47 prósent, en lægst í Suðvesturkjördæmi eða 33 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×