Innlent

Kippur í gosinu í nótt

MYND/Pjetur

Gosórói á eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi var með mesta móti í gærkvöldi og í nótt, en hefur hins vegar dvínað á ný með morgninum, að sögn Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings í Stykkishólmi.

Haraldur telur sennilegt að hraunrennsli hafi aukist í gærkvöldi en gosóróinn er mælikvarði á magn kviku og gass sem streymir upp um gosrásina. Samkvæmt tilkynningu Almannavarna urðu nokkrar breytingar við gosstöðvarnar í gær og í fyrrinótt. Hraunið hefur breitt úr sér á stærra svæði, þar sem útsýnissvæðin eru, og hefur það brætt mikið af snjó og ís.

Vatnið hefur runnið til norð-austurs og skorið sprungu í ísinn á rúmlega 600 m kafla. Þessi sprunga er hættuleg allri umferð á svæðinu og þeir sem fara þarna um eru hvattir til að sýna aðgát og leita til vlögreglu eða björgunarsveita á staðnum ef það vantar frekari upplýsingar.

Þá hefur hraun einnig farið að renna frá nýrri sprungunni til vesturs í Hvannárgil og stendur gufustrókur uppúr því. Björgunarsveitarmenn og lögregla eru sem fyrr á vakt á nokkrum stöðum í Goðalandi, á Fimmvörðuhálsi og við Skóga og Sólheima. Nú er fátt fólk við gosstöðvarnar.

Að sögn björgunarsveitarmanna sem fóru um Mýrdalsjökul nú í morgun er færi þar fyrir bíla á 38 tommu dekkjum en ekki fyrir bíla á minni dekkjum.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli: Norðvestan 3-8 m/s og léttskýjað. Austan 5-10 síðdegis og þykknar upp. Vaxandi vindur seint í nótt og á morgun með snjókomu, 18-23 m/s síðdegis. Frost 3 til 8 stig að deginum. Vindkælistig á bilinu -8 til -16 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×