Innlent

Þorsteinn J.: Vill bara bestu sérfræðingana

„Kjarni málsins er að ég, sem ritstjóri þáttarins, vil fá bestu sérfræðingana til þess að tala um leikina og mín skoðun er sú að Hjörvar, Pétur og Auðunn eru þeir bestu," segir Þorsteinn J. Vilhjálmsson, sem sér um HM þættina á Ríkisútvarpinu en framkvæmdarstjóri Jafnréttisstofu, Kristín Ástgeirsdóttir, segir að á undanförnum dögum hafi borist ábendingar og kvartanir vegna skorts á sýnileika kvenna við lýsingar á leikjum á HM í Suður-Afríku.

„Ég fagna umræðunni," segir Þorsteinn og bætir við að fjölmargar konur séu einnig gestir þáttarins.

Spurður hvort gagnrýnin sem Jafnréttisstofa beinir að þættinum eigi ekki við rök að styðjast segir hann að ákvörðunin sé eingöngu ritstjórnarleg og komi jafnréttismálum ekkert við.

„Þessi umræða er síkvik og margslunginn. En gott efni gengur fyrir," segir Þorsteinn.

Spurður hvort hann ætli að bregðast við gagnrýni Jafnréttisstofunnar segist hann ætla að hugsa þetta út frá faglegum sjónarmiðum.

Þegar haft var samband við Pál Magnússon og hann spurður út í gagnrýni Jafnréttisstofunnar svaraði hann því til:

„Ég hef ekkert annað að segja en að ég sakna kvennanna þarna líka, ég er alveg sammála jafnréttisstofu það hefði verið skemmtilegra að hafa fleiri konur þarna."


Tengdar fréttir

Jafnréttisstofa spyr hvar konurnar séu á HM

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir að á undanförnum dögum hafi borist ábendingar og kvartanir vegna skorts á sýnileika kvenna við lýsingar á leikjum á HM í Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×