Innlent

Búið að keyra niður 75 kindur fyrir vestan

Sauðfé við þjóðveginn í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum er í hættu á sumrin vegna vangár sumra ökumanna með hörmulegum afleiðingum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar. FRÉTTABLAIÐ/STEFÁN
Sauðfé við þjóðveginn í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum er í hættu á sumrin vegna vangár sumra ökumanna með hörmulegum afleiðingum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar. FRÉTTABLAIÐ/STEFÁN
Sjötíu og fimm kindur hafa verið keyrðar niður á þjóðvegum á Vestfjörðum á tímabilinu 17. maí til 11. júlí. Síðast í fyrrinótt var ekið yfir tvö lömb sem bæði drápust.

Einungis þrír eða fjórir ökumenn af öllum þessum fjölda hafa tilkynnt óhappið. Hinir hafa ekið í burtu frá fénu dauðu eða limlestu. Þetta segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. „Þessar ákeyrslur á sauðfé er árviss viðburður hjá okkur,“ segir hann. „Svo þegar lömbin fara að stækka, verða vitrari og varkárari fer heldur að draga úr þessu, því þau forðast þá frekar bílana. En ég tel að þetta haldi áfram fram yfir smölun í haust.“

Önundur segir að þeir ökumenn sem tilkynni ákeyrslu á fé séu hinir sömu og verði fyrir miklu tjóni á bílum sínum við áreksturinn. Hinir láti dýrin liggja eftir.

„Yfirleitt kemst þetta þannig upp að aðrir vegfarendur láta okkur vita. Bóndinn sem á kindina sem ekið hefur verið á hefur síðan samband við okkur. Við skráum atvikið í dagbók lögreglu, prentum skráninguna út og sendum til viðkomandi tryggingafélags. Bændurnir eru tryggðir fyrir þessu að einhverju marki.“

Önundur segir að þarna sé fyrst og fremst um tryggingamál að ræða, en að sjálfsögðu einnig brot á dýraverndunarlögum, þegar ekið er á skepnu án þess að tilkynna það.

„En það liggur of mikill kostnaður í því fyrir lögreglu að finna ökumann er hefur ekið á skepnu sem er búin að liggja í smá stund, svo ekki sé talað um tvo eða þrjá daga.“

Önundur kveðst telja að þeir sem skilji dýrin eftir í blóði sínu, lífs eða liðin, séu ekkert að stoppa. Þeir haldi bara áfram. „En það hlýtur að sækja eitthvað á menn þegar þeir hafa farið svona að ráði sínu og skilja dýrið eftir dautt eða limlest.“

Önundur segir að þegar tilkynning um ákeyrslu berist lögreglu sjái hún um aflífun dýrsins sé ekki um mjög langan veg að fara. Ella sé haft samband við bændur nærri slysstað og einhver þeirra beðinn um að annast aflífunina.

Spurður hvort ekki sé hægt að stemma stigu við ákeyrslum á búfénað með girðingum meðfram þjóðveginum í umdæminu bendir Önundur á að þá þyrfti að girða þúsund kílómetra langa girðingu. Misjafnar skoðanir séu uppi á svo stórri framkvæmd.

jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×