Viðskipti innlent

Nær 300 viðskiptahugmyndir keppa um Gulleggið

Búið er að loka fyrir skráningar í frumkvöðlakeppni Innovit, Gulleggið 2010. Nær 300 viðskiptahugmyndir voru sendar inn. Keppnin er samstarfsverkefni framsækinna fyrirtækja á Íslandi, Samtaka Iðnaðarins, Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bifröst og Keilis.

Í tilkynningu segir að undirtektir við keppninni í ár hafi verið frábærar og aldrei áður hafa jafn margar viðskiptahugmyndir vera sendar inn. Í ár bárust 295 viðskiptahugmyndir sem munu nú fá aðstoð frá sérfræðingum Innovit og samstarfsaðilum þess til að byggja upp fullmótaða viðskiptaáætlun sem skila þarf fyrir 8. mars.

Þá munu tíu efstu viðskiptaáætlanirnar komast áfram á lokahóf keppninnar sem verður haldið 10. apríl og keppast um verðlaunagripinn Gulleggið.

Heildarverðlaun í ár eru metin á meira en 3.000.000 íslenskra króna. Þá munu ýmis fyrirtæki bjóða upp á sérverðlaun til þátttakenda. Til dæmis mun Fulltingi lögfræðaþjónusta velja viðskiptahugmynd sem fær ókeypis ráðgjöf að keppni lokinni og Prentsmiðjan Oddi mun gefa efstu hugmyndum prentað efni til að hjálpa þeim að komast af stað.

Innovit, nýsköpunar og frumkvöðlasetur vonar að keppnin muni hjálpa til við að blása til stórsóknar í íslensku atvinnulífi og langar að nýta tækifærið til að þakka þeim fjölmörgu aðilum, fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sem hafa lagt fram ómetanlega vinnu og framlag til að gera keppnina að raunveruleika í þriðja sinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×