Viðskipti innlent

Greining MP Banka spáir hógværri stýrivaxtalækkun

Greining MP Banka telur líklegast er að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda áfram að lækka vexti í bili, en fari þó að öllu með gát vegna aukinnar óvissu um efnahagsáætlunina og erlenda fjármögnun. Því megi reikna með 25 punkta (0,25 prósentustiga) lækkun stýrivaxta á miðvikudaginn kemur.

Fjallað er um málið í Markaðsvísi greiningarinnar. Þar segir að heldur brösuglega hafi gengið að vinna eftir efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað til. Á einu og hálfu ári er hún komin rúmt ár á eftir áætlun og á Seðlabankanum hefur mátt skilja að í besta falli séu nokkrir mánuðir í að næsta skref til afnáms hafta verði stigið.

Ef Seðlabankinn vinnur enn samkvæmt því að lausn á vandamálunum við framgöngu efnahagsáætlunarinnar séu rétt handan við hornið þá er mikilvægast fyrir hann að tryggja að raunvaxtamunur við útlönd sé nægjanlegur til þess að halda aftur af útflæði fjármagns og frekara hruni krónunnar við afnám gjaldeyrishafta.

Stýrivaxtamunur gagnvart helstu myntum hefur lækkað nokkuð síðustu mánuði. Þótt hann sé verulegur ennþá hefur hann ekki verið lægri gagnvart pundi frá því í mars 2008, gagnvart Bandaríkjadal frá því í september 2007 og gagnvart evru síðan í maí 2006.

Skuldatryggingarálag ríkisins til 5 ára er nú um 415 punktar sem er nokkru hærra en það var undir lok síðasta árs. Aukin óvissa um erlenda fjármögnun og framvindu efnahagsáætlunarinnar bendir til þess að óvarlegt sé að fara geyst í vaxtalækkanir að sinni, að minnsta kosti ef það er á dagskrá að afnema gjaldeyrishöft, en reynslan hefur kennt okkur að gjaldeyrishöft geta orðið langvinn og skaðleg þótt þeim sé komið á sem tímabundinni lausn á skammtíma vanda.

Ef Seðlabankinn er kominn á þá skoðun að efnahagsáætlunin sé það langt á eftir áætlun að afnám hafta verði ekki á dagskrá næstu árin er tímabært að miða vaxtastigið við innlent efnahagsástand. Þótt ákveðin hætta á kostnaðarverðbóglu sé til staðar og óvissa sé um niðurstöður kjarasamninga síðar á árinu, þá er vaxtastigið nú fullhátt.

Þó er mikilvægt að vextir hvetji til sparnaðar sem stendur því að við munum ekki eyða okkur út úr kreppunni. Hún er einmitt afleiðing eyðslu og lítils sparnaðar undanfarin ár. Einnig er mikilvægt að raunávöxtunarkrafa sé jákvæði svo að ekki verði farið út í óarðbærar fjárfestingar sem tímabundna reddingu á atvinnuástandinu. Slíkt tefur aðeins fyrir eðlilegri uppbyggingu og beinir framleiðslunni á rangar brautir.

Engu að síður er ljóst að útfrá innlendum efnahags- og verðbólguhorfum eru stýrivextir full háir sem stendur, að er því segir í Markaðsvísinum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×