Innlent

Haraldur verður tímabundið í fullu starfi hjá OR

Ný stjórn tók við á aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Á fundinum lagði Jón Gnarr, borgarstjóri, fram áherslur Reykjavíkurborgar í rekstrinum. Haraldur Flosi Tryggvason er nýr stjórnarformaður og auk hans skipa stjórnina þau Helga Jónsdóttir, Aðalsteinn Leifsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir og Hrönn Ríkharðsdóttir. Áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar er Björn Bjarki Þorsteinsson. Haraldur verður tímabundið í fullu starfi sem stjórnarformaður.

Á fundinum í dag lagði Jón fram megináherslur Reykjavíkurborgar í rekstri fyrirtækisins og eru þær þessar:

1. Auðlindir verði nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra.

2. Allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu.

3. Borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.

Þá sagði borgarstjóri að veganesti borgaryfirvalda til nýrrar stjórnar væri m.a. að skilgreina væntanlega úttekt á rekstri fyrirtækisins með það að markmiði að skýra stöðu mála og draga fram þær áskoranir og þá möguleika sem eru í stöðunni og einbeita sér sérstakalega að fjármögnun þess, að því er fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Á fundinum samþykktu fulltrúar eigenda einróma að Haraldur Flosi Tryggvason verði tímabundið í fullu starfi og miðist heildarkjör hans við kjör sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg án fríðinda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×