Erlent

Ofbeldisverkum fjölgar í kjölfar kosninga

Stuðningsmaður Allawis borinn til grafar Al Obadi var myrtur í Bagdad á laugardag þegar hann var að fagna kosningasigri Ayads Allawis.fréttablaðið/AP
Stuðningsmaður Allawis borinn til grafar Al Obadi var myrtur í Bagdad á laugardag þegar hann var að fagna kosningasigri Ayads Allawis.fréttablaðið/AP
Írak, AP Töluvert ofbeldi hefur verið í Írak um helgina eftir birtingu kosningaúrslita á föstudagskvöld þar sem veraldlega sinnaðir súnnímúslimar unnu óvæntan sigur.

Stuðningsmaður sigurvegarans var myrtur á laugardag og að minnsta kosti fimm manns fórust í sprengjuárásum í gær. Óttast er að framhald verði á ofbeldisverkum meðan óvissa ríkir um stjórnina, sem væntanlega verður næstu mánuðina.

Sigurvegari kosninganna var Ayad Allawi, veraldlega sinnaður sjíamúslimi, og flokkabandalag hans, sem hlaut 91 þingsæti. Nouri al Maliki, sjíamúslimi sem verið hefur forsætisráðherra Íraks í næstum fjögur ár, fékk 89 atkvæði og krefst þess að atkvæði verði endurtalin. Hvorugur þeirra Allawis og Malikis hefur nægan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn á 325 manna þingi landsins, þar sem 163 atkvæði þarf til að mynda meirihluta.

Hin óvæntu úrslit kosninganna, sem birt voru á föstudagskvöld, vekja hins vegar vonir bæði arabaríkja og Bandaríkjanna um að draga muni úr áhrifum Íranskra stjórnvalda í Írak. Talið er að Maliki hafi hins vegar meiri áhuga á að starfa með Íraska þjóðabandalaginu, sem hefur náin tengsl við Íran, en þá yrðu sjíar áfram ráðandi afl í íröskum stjórnmálum en súnnímúslimar áfram áhrifaminni.

-gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×