Innlent

Jóhanna harðneitar að hafa gefið loforð um launahækkun bankastjóra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson og Jóhanna Sigurðardóttir á ársfundi Seðlabanka Íslands. Mynd/ Stefán.
Már Guðmundsson og Jóhanna Sigurðardóttir á ársfundi Seðlabanka Íslands. Mynd/ Stefán.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir það vera dylgjur að hún hafi gefið fyrirheit um að laun seðlabankastjóra myndu hækka umfram það sem niðurstaða kjararáðs sagði til um.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi sagði hún að formaður bankaráðs Seðlabankans hafi hvorki haft samráð við sig né fjármálaráðherra um tillögu sem hún lagði fram í bankaráði um 400 þúsund króna launahækkun bankastjórans. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurðu ráðherra út í málið á Alþingi í morgun. Sigurður Kári spurði jafnframt hvort forsætisráðherra hafi haft vitneskju um málið.

Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðsins, hefur sagt í fjölmiðlum að með tillögu sinni hafi hún verið að efna loforð sem seðlabankastjóra hafi verið gefin við skipan hans í starfið. Sigurður Kári sagði að samkvæmt heimildum sem fjölmiðlar hefðu aflað sér hefði loforðið verið gefið í forsætisráðuneytinu.

Þessu hafnaði ráðherra og sagði jafnframt að formaður bankaráðsins hefði sjálf sagt að tillagan yrði dregin til baka. Forsætisráðherra sagðist sjálf telja að sú niðurstaða væri farsælust að hennar eigin mati.

Sigurður Kári var ósáttur við hve rýr svör forsætisráðherra voru og sagði hana ekki hafa svarað öllum þeim spurningum sem hann lagði fyrir hana. Undir það tók Birkir J. Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×