Viðskipti innlent

Seðlabankinn hefur aðgang að 745 milljörðum í gjaldeyri

Aðgangur Seðlabankans að gjaldeyri nemur um 745 milljarðar króna í augnablikinu. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka.

Í Markaðspunktunum segir að gjaldeyrisforðinn og aðgengi Seðlabankans að gjaldeyri í formi skiptasamninga og lánsloforða hefur aukist mjög á síðustu vikum og mánuðum en skráður gjaldeyrisforði í lok maí var 506 milljarðar króna.

Sé bætt við jöfnuna gjaldmiðlaskiptasamningi sem gengið var frá við Kína í dag upp á 66 milljarða króna, Lúxemborgarsamningnum upp á 82 milljarða króna ásamt lánsloforðum vinaþjóða (Norðurlönd og Pólland) í kjölfar annarar endurskoðunar AGS upp á 90 milljarða, er aðgangur bankans að gjaldeyri 745 milljarðar kr.

„Ef við hinsvegar drögum frá umræddum 745 milljörðum innstæður innlánsstofnanna og skilanefnda (254 milljarðar króna) ásamt yfirvofandi gjalddögum af erlendum lánum til ársloka 2012 (um 300 milljarðar króna) er "aðgengilegur" gjaldeyrisforði tæpir 190 milljarðar króna eins og sakir standa, (með samningi við Kína)," segir í Markaðspunktunum.

„Erum við þá að gefa okkur að Seðlabankinn gæti hugsanlega notað innistæður innilánastofnana og skilanefnda ef bið er eftir öðrum gjaldeyri í staðinn vegna gjaldmiðlaskiptasamnings við Kína. Þegar, og ef, þriðja endurskoðun AGS nær fram að gang ættu að bætast enn fremur við um 100 milljarðar kr. í aðgengilegan forða. Því má spyrja sig hvenær Seðlabankanum muni þykja nóg komið í forðasöfnun svo að afnám gjaldeyrishafta geti hafist af fullri alvöru."

Ennfremur segir í Markaðspunktunum að eins og fram kom í stefnuyfirlýsingu Seðlabankans á síðasta stýrivaxtaákvörðunarfundi mun afnám gjaldeyrishafta haldast í hendur við lausn Icesave deilunnar eða við þriðju endurskoðun áætlunar AGS.

Flest bendir þó til þess að þriðja endurskoðun AGS haldist í hendur við lausn á Icesave, í það minnsta er ólíklegt að umtalsverð fyrirgreiðsla fáist frá Norðurlandaþjóðunum án úrlausnar Icesave. En langstærsti hluti af eftirstandandi fjármögnun efnahagsáætlunar Íslands kemur frá Norðurlandaþjóðunum og dugar því skammt það fjármagn sem fengist eitt og sér frá AGS við þriðju endurskoðun, ef það á að breyta einhverju um afnám gjaldeyrishafta.

Í þessu samhengi er þó áhugavert að síðan peningastefnunefnd taldi þriðju endurskoðun duga til svo að afnám gjaldeyrishafta gæti hafist, þá hefur Lúxemborgardíllinn ásamt skiptasamningi við Kína eflt aðgang Seðlabankans að gjaldeyri um hátt í 150 milljarða króna. Í sömu andrá hefur staða erlendra aðila í íslenskum krónueignum lækkað um fjórðung, en eignir Avens í Lúxemborg voru um 120 milljarðar króna, og er nú í námunda við 360 milljarða króna.

Samkvæmt mati Seðlabankans í lok apríl 2009 var um 40% af krónueignum erlendra aðila flokkaðar sem "kvikar". Í því mati námu eignir erlendra aðila í innlendum eignum um 630 milljörðum króna. Því hefur sú tala lækkað um rösklega 40% frá mati Seðlabankans úr 630 milljörðum kr. í 360 milljarða kr.

„Sennilega var um ofmat að ræða á sínum tíma þar sem innlendir aðilar töldust til erlendra ásamt því að „kviki" hlutinn hefur að einhverju marki komið sér úr íslenskum eignum í gegnum aflandsmarkað, á meðan sá gluggi var opinn. Að sama skapi er ljóst að stærð "útlendingavandans" er mun minni en upphaflega var gert ráð fyrir og því hlýtur forðasöfnunin að taka mið af þeirri staðreynd," segir í Markaðspunktunum.

„Reyndar hefur það lengi verið skoðun okkar að stærsta vandamálið við afnám gjaldeyrishafta verði ekki umrædd staða erlendra aðila í íslenskum krónueignum. Miklu frekar mun framhaldið ráðast af þeim himinháu innstæðum Íslendinga sem gætu viljað leita út úr hagkerfinu. Væntanlega mun afnám af þeim hluta bíða betri tíma og verða síðasta skrefið í afnámi haftanna.

Það er ekki raunhæft að Seðlabankinn safni forða sem nemur öllu hugsanlegu útflæði gjaldeyris, þ.m.t. öllum innstæðum Íslendinga í bönkunum. Markmið Seðlabankans í forðasöfnun hlýtur í meginatriðum að vera það að forðinn dugi til að mæta allra kvikasta fjármagninu."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×