Innlent

Mestu breytingarnar í 30 ár

Menntaskólinn á akureyri fyrsta ári munu sækja fróðleik og gögn í vettvangsferðum í nýjum Íslands-áfanga.
Menntaskólinn á akureyri fyrsta ári munu sækja fróðleik og gögn í vettvangsferðum í nýjum Íslands-áfanga.

Stjórnendur Menntaskólans á Akureyri hafa ráðist í umfangsmiklar breytingar á námsskrá og kennslufyrirkomulagi skólans. Eru þetta mestu breytingar sem gerðar hafa verið frá því áfangakerfi var tekið upp fyrir 30 árum. Hugmyndin að baki breytingunum er að auka virkni nemenda og ábyrgð þeirra á námi sínu.

Nýr áfangi, Íslandsáfangi, verður tekinn upp við Menntaskólann á Akureyri í haust. Er honum ætlað að skerpa sýn og auka skilning nemenda á landinu, þjóðinni og tungunni. Í áfanganum, sem verður kenndur á fyrsta ári, verður upplýsingatækni samofin verkefnavinnu og sérstaklega hugað að læsi og beitingu móðurmálsins, bæði í ræðu og riti. Virk þátttaka nemenda liggur til grundvallar og er mikið lagt upp úr að glæða áhuga þeirra á umhverfi sínu og náminu almennt. Sækja nemendur fróðleik og gögn í vettvangsferðum og fer námið fram utan skólans sem innan.

Aðrar grundvallarbreytingar á námsskrá MA felast í svokölluðum velgengnisdögum á öllum önnum þar sem hefðbundin kennsla verður brotin upp, lokaverkefni sem allir nemendur þurfa að ljúka á fjórða ári og færslu dönskukennslu af fyrsta ári yfir á þriðja ár. Sú breyting mun ekki síst gagnast þeim nemendum sem halda til háskólanáms á Norðurlöndunum að loknu stúdentsprófi.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×