Erlent

Kuldinn herjar enn á Evrópubúa

MYND/AP

Evópubúar búa enn við kulda og fannfergi og spáin fyrir helgina gerir ekki ráð fyrir að sólin láti sjá sig í bráð. Allt að 28 hafa látist víðsvegar um álfuna í atvikum sem rakin eru til veðursins og þúsundir hafa verið innlyksa eftir að vegum hefur verið lokað og samgöngur raskast. Á Balkanskaga hafa mikil flóð þröngvað þúsund manns til þess að yfirgefa heimili sín. Flest dauðsföll vegna kuldans hafa verið í Póllandi enda hefur frostið mælst allt að þrjátíu og þremur gráðum þar í landi.

Að sögn pólsku lögreglunnar hafa 18 manns farist í kuldunum, flestir heimilislausir áfengisneytendur sem hafa sofnað úti undir berum himni og frosið í hel. Að sögn BBC fréttastofunnar hafa þrír látist í Moskvu og í Þýskalandi hafa að minnsta kosti tveir orðið úti og einn eldri maður lenti fyrir lest þar sem hann var að moka snjó.

Samgöngur eru víða úr skorðum og hafa orðið miklar tafir á alþjóðaflugvöllum á borð við Heathrow, Charles de Gaulle og á Schiphol. Gatwick flugvöllur í London opnaði á nýjan leik í morgun en farþegar hafa verið varaðir við töfum og aflýsingum. Iceland Express flýgur á Gatwick og samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar eru ferðir þess á völlinn í dag á áætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×