Viðskipti innlent

Bættar forvarnir geta sparað milljarða í atvinnurekstri

Árlega þurfa um 9000 manns að leita aðstoðar vegna vinnuslysa hér á landi og rannsóknir sýna að enn fleiri verða fyrir heilsutjóni vegna atvinnusjúkdóma. Á árunum 2006 til 2008 létust að jafnaði 5 manns árlega í vinnuslysum hér á landi. Rannsóknir á Vesturlöndum benda til þess að 3-4% af landsframleiðslu glatist vegna heilsutjóns á vinnustöðum en það samsvarar 45-60 milljörðum króna á Íslandi.

Í tilkynningu segir að Vinnueftirlitið og VÍS hafi tekið upp samstarf sem miðar að því að efla forvarnir en talið er að með tiltölulega einföldum og ódýrum fyrirbyggjandi aðgerðum megi fækka verulega óhöppum og slysum í atvinnurekstri og draga þannig verulega úr þeim útgjöldum sem af þeim hljótast. Samstarf Vinnueftirlits og VÍS verður innsiglað með sameiginlegri ráðstefnu um forvarnarmál sem haldin verður þann 4. febrúar næst komandi.

Ljóst er að forsenda þess að draga megi úr óhöppum og heilsutjóni í atvinnulífinu er að fram fari áhættumat á vinnustöðum. Þegar það liggur fyrir er hægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða en reynslan sýnir að jafnvel hættulegustu störf má skipuleggja þannig að áhætta sé í lágmarki.

Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá 1989 ber atvinnurekendum að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar með talið áhættumat. Þessar reglur voru innleiddar hér á landi árið 2006 og samkvæmt könnunum sem bæði Vinnueftirlitið og VÍS hafa gert er verulegur misbrestur á að íslensk fyrirtæki uppfylli lögboðnar skyldur í þessum efnum.

Í könnun Vinnueftirlitsins sem gerð var árið 2009 höfðu einungis 6% íslenskra fyrirtækja með 1-4 starfsmenn framkvæmt lögbundið áhættumat, hjá fyrirtækjum með 5-19 starfsmenn höfðu 20% gert áhættumat og 31% fyrirtækja með 20 starfsmenn eða fleiri. Heimsóknir þjónustufulltrúa VÍS í 300 fyrirtæki á síðasta ári sýndu svipaða niðurstöðu en þá voru einungis 12% fyrirtækja búin að gera áhættumat.

Til samanburðar má geta þess að árið 2006 höfðu 75% danskra fyrirtækja með 1-4 starfsmenn gert áhættumat, 75% fyrirtækja með 5-19 starfsmenn og 97% danskra fyrirtækja með 20 starfsmenn og fleiri höfðu lagt mat á áhættu í starfsemi sinni árið 2006. Geta má þess að innleiðing áhættumats byrjaði 13 árum fyrr í Danmörku.

Á ráðstefnu VÍS og Vinnueftirlitsins verður sjónum einkum beint að áhættumati og áhættuskráningu. Fjallað verður um áhættumat og forvarnir hjá sveitarfélögum og bændum og fulltrúar fyrirtækja í ólíkum rekstri munu gera grein fyrir atvikaskráningu og áhættumati í rekstri sínum. Á ráðstefnunni verða forvarnarverðlaun VÍS veitt í fyrsta skipti fyrirtækjum sem talin eru til fyrirmyndar eða hafa náð góðum árangri í forvarnarmálum.

Stefnt er að því að forvarnarráðstefna VÍS og Vinnueftirlitsins verði árlegur viðburður. Hún verðu haldin milli kl. 13 og 16 í húsakynnum VÍS í Ármúla fimmtudaginn 4. febrúar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×