Það var æði skrautlegt Fitness Sport mótið á Eimskipsmótaröðinni um helgina. Veður sett strik í reikninginn og þá bárust fréttir af glæsilegu vallarmeti, sem þurfti síðan að draga til baka.
Heimamaðurinn Alfreð Brynjar Kristinsson lék vel og var samtals á fjórum höggum undir pari eftir 36 holur. Það skor hefði dugað honum í bráðabana um sigurinn við Sigurþór Jónsson úr GK sem einnig lék á fjórum höggum undir pari.
Sigurþór vann mótið en Alfreð var aftur á móti vísað úr keppni. Vitlaust skor var ritað á 12. holu fyrri hrings þar sem fugl var skráður í stað pars. Alfreð var því vísað úr mótinu fyrir að skila inn röngu skorkorti.
„Ég leit yfir strimilinn minn og bar saman skorið við það sem var á skorkortinu mínu. Ég sá ekkert athugavert. Ég lagði þetta saman í huganum og fékk að ég væri á fjórum undir og skilaði því kortinu inn. Ég hefði kannski átt að skoða kortið einu sinni enn," segir Alfreð við Kylfing.is.
„Ég vissi ekkert hvað var í gangi fyrr en ég kom inn af 18. flöt eftir seinni hringinn og málið var leiðrétt á fundi með mótsstjórn."
