Viðskipti innlent

Krónueign erlendra fjárfesta helst stöðug

Krónueign erlendra fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum hefur haldist nokkuð stöðug síðustu mánuði. Eign erlendra aðila (að nafnvirði) er nú svipuð og hún var vorið 2009 eða um 220 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Þar segir að vísu séu ekki margar undankomuleiðir til staðar fyrir þessa fjárfesta þar sem gjaldeyrishöft binda þetta fjármagn hérlendis, en af þeim kostum sem standa til boða virðast ríkisverðbréf vera langvinsælasti kosturinn.

Aftur á móti eru bankainnistæður erlendra aðila í krónum fremur takmarkaðar og hafa haldist stöðugar í 20 milljörðum kr. síðustu mánuði skv. Seðlabankatölum. Þeir virðist því taka ríkisverðbréf fram yfir innlán og að auki kjósa þeir styttri bréf fram yfir lengri.

Í lok maí áttu erlendir aðilar rúmlega 90% af RIKB 10, um 45% af RIKB 11 og um 70% af RIKB 13 en stærð flokkanna er á bilinu 50 til 80 milljarðar kr. Þess ber að geta að erlendir aðilar hafa bætt verulega við sig af RIKB 10 og hafa farið úr því að eiga tæplega 75% í það að eiga 90%. Að sama skapi hafa þeir bætt við sig af RIKB 11 en í lok maí áttu þeir 24 milljarða kr. að nafnvirði samanborið við 9 milljarða kr. í byrjun árs.

Erlendir aðilar eiga nú þegar stóran hluta ríkisvíxla sem og RIKB 13 sem takmarkar getu þeirra til að bæta við sig í þeim flokkum. Það sem eftir lifir árs mun eiga sér stað útgáfa óverðtryggða ríkisbréfa fyrir tæplega 60 milljarða kr. og munu erlendir aðilar eflaust kaupa hluta af þeirra útgáfu, sérstaklega ef bréfin eru til skamms tíma. Fé erlendra fjárfesta sem losnar í desember mun væntanlega leita í nýjar útgáfur og RIKB 11, að því er segir í Markaðspunktunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×