Innlent

Fótbolti dregur athygli að mannréttindabrotum

Wilter hefur barist gegn mannréttindabrotunum í hverfi sínu lengi. Hún hélt fyrirlestur um baráttuna í Naíróbí í Reykjavík í síðustu viku á vegum Amnesty. fréttablaðið/ARNÞÓR
Wilter hefur barist gegn mannréttindabrotunum í hverfi sínu lengi. Hún hélt fyrirlestur um baráttuna í Naíróbí í Reykjavík í síðustu viku á vegum Amnesty. fréttablaðið/ARNÞÓR

Wilter Nyabate er kenísk baráttukona sem hefur undanfarin ár barist gegn því að fólk í fátækrahverfum í höfuðborg landsins sé flutt nauðugt af heimilum sínum. Hún var hér á landi á vegum Amnesty til að kynna átakið Stand up united, sem á íslensku heitir Vertu með í vörninni… gegn mannréttindabrotum. Þetta er alþjóðleg herferð Amnesty sem var hrundið af stað í tilefni af heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og ætlað að vekja athygli á mannréttindabrotum víðs vegar um heiminn.

Keníska ríkisstjórnin lofaði fyrir nokkru að bæta úr aðstæðum og húsnæðismálum í fátækrahverfunum í Naíróbí, höfuðborg Kenía. Helmingur íbúa borgarinnar búa í slíkum hverfum, þar á meðal Wilter, sem býr ásamt tveimur börnum sínum í stærsta fátækrahverfinu.

Ýmislegt jákvætt hefur gerst eftir að ríkisstjórnin hóf átak sitt, en því fylgir einnig margt slæmt. Fjöldi fólks í hverfinu sem Wilter býr í hefur verið flutt nauðugt úr húsum sínum og þau jöfnuð við jörðu.

„Þeir koma um miðjar nætur. Það sjást bara jarðýtur og þú heyrir grát í börnum og mæðrum sem kalla á hjálp. Þetta er sálfræðileg pynting, þær taka auðvitað börnin með sér út og þá verða allar eigur þeirra eftir. Það er enginn fyrirvari og allt er eyðilagt. Þegar fólk kemur svo heim aftur til að byrja upp á nýtt á það ekkert. Þú færð engar bætur fyrir það sem þú missir."

Komið hefur verið upp kerfi meðal íbúanna í hverfinu til að bregðast við þessu. „Þegar við heyrum að verið er að bera fólk út þá látum við það berast og látum fjölmiðla á svæðinu líka vita. Við mætum og fjölmiðlarnir líka, það vekur athygli og stjórnvöld sjá að við vitum alveg hvað við erum að gera."



Erfiðar aðstæður í hverfunum
Wilter Nyabate

Lífið í fátækrahverfunum er streð, og þar eru erfiðar aðstæður. „Þú þarft að borga fyrir alla grunnþjónustu, eins og vatn, á hverjum degi í litlum skömmtum. Þú verður að borga fyrir alla læknisþjónustu, og margir í þessum hverfum hafa ekki efni á því. Fólk er með HIV eða alnæmi og fær lyf, en getur ekki tekið þau því það hefur ekki efni á nægum mat. Ef lyfin eru tekin án matar þá veldur það svima og vanlíðan, svo sumir hætta að taka lyfin." Fólk eins og Wilter borgar þó skatta. „Okkar skattar eru háir. Fólkið sem fær undir 50 dollara á mánuði borgar skatta - en allir þingmenn hafa skattfrjálsar tekjur. Þeir eru með um tvær milljónir íslenskra króna á mánuði, en borga enga skatta. Á meðan svo er þá verða fátækir alltaf fátækir, og ríkir alltaf ríkir."

Þrýstingur að utan

Eitt af því sem Wilter og samstarfsfélagar hennar berjast fyrir er að keníska ríkisstjórnin komi á gagnsæjum reglum um hvernig staðið skuli að þessum málum. „Fólkið fær ekki upplýsingar um hvað sé að gerast og það fær ekki tíma til að segja sína skoðun." Íbúarnir í hverfinu óttast að þó að ætlunin sé að byggja betra húsnæði á svæðinu muni það alls ekki standa núverandi íbúum til boða, til þess verði það of dýrt. „Húsin eru gerð fyrir fólkið sem býr þarna en þau eru alltof dýr. Það er svo erfitt að eignast hús, flest fólkið úr fátækrahverfunum mun ekki græða á þessu verkefni."

Ákveðið var að tengja baráttuna fyrir mannréttindum við heimsmeistaramótið til að vekja sem mesta athygli. „Stór hluti heimsins er að fylgjast með og þetta var leið til að ná til þeirra og gera þeim grein fyrir því hvað er að eiga sér stað. Þetta er að eiga sér stað víðs vegar um heiminn og það er réttur fólks að vera ekki borið út af heimilum sínum."

„Nú eru stjórnvöld að reyna að koma á reglum um þetta. Alþjóðasamtök hafa verið að taka þátt í því. Við þurfum líka þrýsting að utan til þess að þetta verði gert. Ríkisstjórn Íslands getur til dæmis þrýst á ríkisstjórnina í Kenía að virða mannréttindi og hætta þessu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×