Héraðsdómurinn sem kvað myntkörfulán ólögmæt er vandaður og hefur víðtækt fordæmisgildi. Hann kann því að hafa áhrif á hvort tveggja bílalán og fasteignalán.
Þessi sjónarmið heyrast úr stétt lögmanna. Einn þeirra, Einar Hugi Bjarnason, bendir á að dómurinn kunni að opna leiðir fyrir lántakendur til að fá endurgreiðslu og veki spurningar um hvað verði með gerða gjörninga, svo sem þegar fólk hefur breytt lánunum sínum úr erlendum og í krónulán.
Talsmaður neytenda rakti í pistli fyrir áramót að þeir sem nú þegar hafa mátt þola nauðungarsölu eða aðra fullnustuaðgerð, gætu átt skaðabótarétt á hendur bönkum eða öðrum fjármálastofnunum, vegna ólögmætis lánanna.
En það sem gæti haft áhrif á flesta er sá möguleiki að greiðslur af myntkörfulánum, sem hafa um það bil tvöfaldast síðan krónan féll, þurfi að endurskoða. Lánþegi gæti jafnvel átt endurgreiðslu inni.
„Svo eru þeir sem hafa nú þegar greitt upp sín lán eða samið upp á nýtt. Þeir hafa fært lán sín yfir í íslensk lán á miklu verri kjörum en þeir hefðu ella gert,“ segir Einar Hugi, sem starfar á sviði skaðabótaréttar. Hann tekur undir með héraðsdómi. Úrskurðurinn sé vel rökstuddur og í samræmi við lögskýringargögn.
Sú hugmynd hefur heyrst að dómstólar eigi að breyta myntkörfulánum í verðtryggð íslensk lán. Einar Hugi er ekki sannfærður um þá niðurstöðu. „Dómstólar munu líta til þessa verðtryggingarákvæðis. Það er það sem verður dæmt ógilt, en önnur ákvæði stæðu þá óbreytt,“ segir hann.
Sem fyrr segir telur talsmaður neytenda að bankarnir geti orðið bótaábyrgir gagnvart neytendum, fallist Hæstiréttur á niðurstöðu héraðsdóms. Sumir neytendur gætu krafist bóta, hvort sem bankarnir vissu um ólögmæti lánanna eða ekki. Talsmaðurinn, Gísli Tryggvason, telur ekki útilokað að æðstu stjórnendur bankanna beri meðábyrgð á þessu tjóni.
Viðmælendur úr hópi lögmanna taka undir þetta. Stjórnendur bankanna hafi sýnt gáleysi, sé rétt að þeir hafi ekki kynnt sér lögin betur.
klemens@frettabladid.is
