Viðskipti innlent

Telur vöru-og þjónustuviðskiptin skila 120-130 milljörðum

Miðað við tölur um vöruskipti áætlar greining Íslandsbanka að samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum kunni að hafa verið á bilinu 120-130 milljarða kr. á síðasta ári. Það samsvarar 8-9% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en til samanburðar áætlar Seðlabankinn í nýútkominni hagspá að þetta hlutfall hafi verið 6,7% á nýliðnu ári.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Eins og fram kom í fréttum í morgun voru vöruskiptin hagstæð um 87,2 milljörðum kr. á síðasta ári.

Í Morgunkorninu segir að horfur eru á að þessi afgangur verði einnig verulegur á yfirstandandi ári. Viðskiptakjör hafa batnað töluvert frá fyrri hluta síðasta árs vegna mikillar verðhækkunar á áli og nokkurrar hækkunar á verði sjávarafurða. Þá mun þjónustugeirinn væntanlega njóta áfram ávaxtanna af lágu raungengi krónu.

Innflutningur mun svo verða með minnsta móti fram eftir ári vegna áframhaldandi samdráttar í einkaneyslu og fjárfestingu, a.m.k. ef miðað er við síðasta ár. Í því ljósi virðist spá Seðlabankans um 9,6% afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum í hlutfalli við landsframleiðslu á þessu ári nokkuð líkleg til að ganga eftir.

Afgangur af vöruskiptum á síðasta ári var töluvert meiri en fyrstu bráðabirgðatölur gáfu til kynna. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu nam afgangurinn 87,2 milljörðuim kr. en tölur sem birtar voru í upphafi mánaðar bentu til þess að hann hefði verið u.þ.b. 15 milljörðum kr. minni.

Þetta er langmesti afgangur af vöruskiptum sem mælst hefur hér á landi. Til samanburðar var afgangurinn árið 2002, þegar síðast mældist afgangur af vöruskiptum vegna lágs raungengis krónu og samdráttar í innlendri eftirspurn, ríflega 13 milljarða kr.

Metafgangur af vöruskiptum í fyrra skrifast fyrst og fremst á afar snarpan samdrátt innflutnings. Þá má skrifa mestan hluta samdráttar innflutnings til þess skells sem dundi á heimilum og fyrirtækjum í landinu í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Greiningin segir að athyglisvert sé í þessu samhengi að bera saman þróun vöruskiptajafnaðar hér á landi við þróun í löndum sem búa við fastgengi gagnvart stórum hluta viðskiptalanda sinna en hafa orðið illa fyrir barðinu á kreppunni undanfarin misseri. Má þar nefna Írland og Lettland. Í þessum löndum, líkt og hér á landi, hefur orðið verulegur bati á vöruskiptum undanfarið, og eins og hér er meginástæðan mikill samdráttur í innflutningi.

Þannig skrapp vöruinnflutningur í Írlandi saman um 23% á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs frá árinu á undan, og í Lettlandi nam samdráttur innflutnings 31% á þessu tímabili. Hins vegar hafa áhrif veikrar krónu á þjónustujöfnuð verið ótvírætt jákvæð hér á landi undanfarið, ólíkt því sem þau lönd búa við sem eru á föstu gengi gagnvart viðskiptalöndum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×