Viðskipti innlent

Las ekki samninga en gaf út bók um stjórnun Sjóvár

Þór Sigfússon.
Þór Sigfússon.

Þór Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Sjóvár, sem hefur nú stöðu sakbornings í rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum tryggingafélagsins gaf út bókina „Betrun - Hvernig bæta má stjórnun með því að læra af mistökum," haustið 2008.

Í kynningu um bókina segir að bókin fjalli um þau verkefni sem biðu Þórs þegar hann settist í forstjórastól Sjóvár; rekstur, samskipti, starfsanda, ímynd - en ekki síður lærdómana og mistökin.

Þá segir í kynningu, sem er aðgengileg á vef Sjóvár, að Þór noti Sjóvá í bókinni sem dæmi um fyrirtæki sem hafi náð góðum árangri í vátryggingarekstrinum. Þann árangur þakki hann ekki síst því að Sjóváteymið hafi tekist á við vandamálin, rætt um þau og leitað lausna.

Nýttu bótasjóðinn

Rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum Sjóvár snýr að því að því að fé úr vátryggingarekstri Sjóvár hafi verið notað í fjárfestingarstarfsemi þess. Þannig hafi fjármagn úr bótasjóði tryggingafélagsins verið nýtt í fjárfestingar á vegum móðurfélagsins Milestone. Eigendur og stjórnendur Sjóvár, þ.á.m Þór, eru grunaðir um að hafa brotið hlutafélagalög, lög um vátryggingastarfsemi og gerst sekir um umboðssvik, en þau tilheyra auðgunarbrotakafla hegningarlaga og geta varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar.

Þór sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðastliðið sunnudagskvöld að hann hefði fengið samninga af ýmsu tagi inn á borð til sín. Vátryggingasamninga, viðskiptasamninga og fjárfestingasamninga. „Ég gat ómögulega lesið þá alla yfir. Margir eru hundruðir síðna. Ég þurfti að treysta því fólki sem var í kringum mig," sagði Þór, en í yfirheyrslum yfir Steingrími Wernerssyni sagði Steingrímur að Guðmundur Ólason, framkvæmdastjóri Milestone, hefði stýrt bótasjóði Sjóvár og að Þór Sigfússon hefði verið eins konar verkfæri í höndunum á eigendum tryggingafélagsins.

„Ég var fyrst og fremst, mér var falið að sinna vátryggingum. Ég hins vegar skrifaði undir heilmikið af plöggum í kringum fjárfestingarnar. Það er það sem ég þarf að horfast í augu við. Ég hafði aldrei persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í því," sagði Þór í kvöldfréttum Stöðvar 2 síðastliðið sunnudagskvöld.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×