Viðskipti innlent

SA: Vísitala efnahagslífsins enn við lægstu mörk

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar að mati 87% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins, 1% telja þær góðar en 12% telja aðstæður hvorki góðar né slæmar.

Fjallað er um málið á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA). Þar segir að þetta sé meðal niðurstaðna ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í maí og byrjun júní 2010. Afstaða stjórnenda hefur ekki breyst frá síðustu könnun í febrúar og mars sl. Vísitala efnahagslífsins er því enn við lægstu mörk líkt og hún hefur verið frá hruni bankanna.

Stjórnendur horfa samt eilítið bjartari augum til framtíðar en áður. Um 31% svarenda telur að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 28% að þær verði verri en 41% telur að þær verði óbreyttar. Þetta er í fyrsta sinn í 3 ár að þeir eru fleiri sem sjá fram á betri tíð eftir 6 mánuði en þeir sem spá versnandi horfum.

Nær allir sem spurðir voru telja sig hafa nægt starfsfólk og aðeins 6% telja sig búa við skort á starfsfólki. Fækkun starfsfólks er fyrirhuguð hjá 28% fyrirtækja á næstu 6 mánuðum, 14% hyggst fjölga starfsmönnum en 58% býst við óbreyttum starfsmannafjölda. Þetta er heldur dekkri sýn en kom, fram í síðustu könnun og gefur til kynna að samdráttur á vinnumarkaði haldi áfram á næstu mánuðum og atvinnuleysi fari vaxandi. Verst er ástandið í byggingastarfsemi þar sem helmingur stjórnenda telur sig þurfa fækka störfum á næstu 6 mánuðum.

Fyrirtæki landsins reikna áfram með minnkandi innlendri eftirspurn eftir vörum og þjónustu (30%) eða að hún standi í stað (53%) en aðeins lítill hluti (17%) telur að innlend eftirspurn eftir vörum og þjónustu aukist næsta hálfa árið. Hins vegar býst 45% útflytjenda vöru og þjónustu við því að hún aukist, 11% að hún minnki en tæp 44% að hún verði óbreytt. Þetta er svipað viðhorf og kom fram í síðustu könnun. Útflytjendum vöru og þjónustu sem vænta aukinnar eftirspurnar hefur þó fækkað nokkuð.

Varðandi stöðu fyrirtækjanna og rekstrarhorfur þá segja 28% stjórnenda að framlegð fyrirtækisins, þ.e. EBITDA, hafi aukist síðastliðna 6 mánuði, örlítið færri (26%) segir hana óbreytta en 46% segja hana hafa minnkað. Varðandi framtíðarhorfur gerir tæplega fjórðungur ráð fyrir að framlegð af rekstri muni aukast á næstu 6 mánuðum, 42% að hún minnki og 34% að hún muni standa í stað. Þannig fjölgar þeim frá síðustu könnun sem reikna með minni framlegð (áður 34%) á kostnað þeirra sem gera ráð fyrir óbreyttu ástandi (áður 42%).

Að jafnaði búast stjórnendur við því að verðbólgan verði 2,6% næstu 12 mánuði en í mars 2010 reiknuðu þeir með 3,2% verðbólgu.

Samstarf Samtaka atvinnulífsins, Seðlabanka og fjármálaráðuneytis um könnun á stöðu og horfum meðal stærstu fyrirtækja landsins hefur staðið frá árinu 2005. Tímaraðir um niðurstöður varðandi stöðu atvinnulífs, horfur um atvinnu, hagnað, veltu og eftirspurn er hægt að nálgast hér að neðan, auk flokkunar niðurstaðna síðustu könnunar eftir atvinnuvegum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×