Innlent

Fundum Alþingis frestað

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, frestaði fundum Alþingis skömmu eftir klukkan 17 í dag. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að sumarhléið verði óvenju stutt að þessu sinni en þingnefndir koma saman um miðjan ágúst en fyrsti þingfundurinn verður haldinn í byrjun september. Hún sagði að verkefni þingmannanefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verði sett í forgang í störfum þingsins í ágúst og september.

Ásta Ragnheiður sagði að sú gagnrýni sem þingmenn sæti stafi ekki síst af þeirri stjórnmálamenningu og umræðuhefð sem Alþingi sé mótað af. „Á þeirri stöðu berum við öll ábyrgð, ég ekki síður en aðrir. Ég tel mikilvægt að við reynum að bæta þingið en eyðum ekki kröftum okkar í að tala illa um það. Í þeirri gagnrýni sem Alþingi sætir eru að mínum dómi margs konar ranghugmyndir sem þarf að leiðrétta. Og við þurfum að leggja aukna áherslu á að kynna starf þingsins og stjórnmálamanna."

Þá sagði Ásta Ragnheiður að það væri verkefni þingmanna að þróa og bæta vinnubrögðin á Alþingi. „Í dag lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis. Frumvarpið er byggt á þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu vinnuhóps forsætisnefndar um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þar eru á ferðinni ýmsar róttækar breytingar, m.a. á nefndakerfi þingsins og gerð tillaga um nýja nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×