Viðskipti innlent

VBS réð ekki við lága vexti ríkisláns

Forstjóri VBS segir bankann hafa átt nægt fé til að greiða vexti af 26 milljarða króna láni í desember. Rekstrartekjur dugðu hins vegar ekki. 
Fréttablaðið/gva
Forstjóri VBS segir bankann hafa átt nægt fé til að greiða vexti af 26 milljarða króna láni í desember. Rekstrartekjur dugðu hins vegar ekki. Fréttablaðið/gva

VBS fjárfestingarbanki átti aðeins að borga í kringum hálfan milljarð króna í vaxtagreiðslu af 26,4 milljarða króna láni frá ríkinu vegna endurhverfra viðskipta hans við Seðlabankann. Hann réð ekki við greiðsluna í desember og varð úr að FME tók yfir stjórn bankans til bráðabirgða í vikunni.

Jón Þórisson, forstjóri VBS, segir bankann hafa átt fyrir afborguninni enda með 3,5 milljarða króna inni á reikningi hjá Seðlabankanum. Með samþykki Seðlabankans hafi verið ákveðið að nýta ekki féð heldur fresta vaxtagreiðslu. „En í augnablikinu hefði rekstur bankans ekki ráðið við afborganir af láninu," segir hann og bendir á að stjórnarskiptin hafi verið liður í endurskipulagningu VBS að undirlagi Seðlabankans.

Lánið er til sjö ára á tveggja prósenta verðtryggðum vöxtum og átti aðeins að greiða vexti fram undir lok næsta árs en þá bætast afborganir við. Kröfu Seðlabankans á hendur Saga Capital var breytt í lán á sambærilegum kjörum. Lánin voru veitt í mars í fyrra og höfðu bankarnir tvo valkosti: taka boðinu eða hafna því. Fjármálaráðuneytið taldi fyrri kostinn auka líkurnar á fullum heimtum.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í vikunni lánaði VBS að mestu til fasteignatengdra verkefna, sumra sem ekkert varð úr. Bankinn hefur síðastliðin tvö ár þurft að taka til sín nokkurt magn lóða, svo sem á Suðurlandi, upp í skuldir og sat á miklu fasteignasafni þegar gjalddaginn rann upp. Erfitt reyndist að losa um eignir og skorti VBS því laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.

Mál VBS er í vinnslu innan Seðlabankans, sem leitar eftir því að hámarka verðmæti krafna sinna. Krafan á VBS fer líklega inn í Eignasafn Seðlabankans, sem sett var á laggirnar um áramótin og heldur utan um kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum sem falla bankanum í skaut.

- ja






Fleiri fréttir

Sjá meira


×