Innlent

Hundrað konur mættu í brúðarkjól í IKEA

Yfir hundrað konur mættu í brúðarkjól í verslun IKEA í dag til að samgleðjast hinum konunglegu sænsku brúðhjónum. Konurnar fengu glaðning í tilefni dagsins en mest um vert var að samgleðjast krónprinsessunni Viktoríu sem ber nú baug á fingri.

Það var eins og úr sögu eftir H. C. Andersen, brúðkaup sænsku krónprinsessunar Viktoríu, sem haldið var í dómkirkjunni Storkyrkan í Stokkhólmi í dag.

Þjóðhöfðingjar og kóngafólk flykktist til borgarinnar hvaðanæva af úr heiminum í sínu fínasta pússi, en enginn komst þó í hálfkvisti við prinsessuna sjálfa. Sjáið hvað hún er glæsileg í brúðarkjólnum.

Og brúðguminn, almúgamaðurinn Daniel Westling sem kynntist prinsessunni sem einkaþjálfari hennar fyrir átta árum, gat vart tárum varist þegar hann dró hring á fingur heitkonu sinnar og varð þar með prins í ríkinu.

Íslensku forsetahjónin sátu á fremsta bekk í kirkjunni, en þau munu svo sækja 500 gesta hátíðarkvöldverð í konungshöllinni í kvöld og færa brúðhjónunum myndarlega glerskál í brúðargjöf.

Að athöfninni lokinni tók við eins konar konungleg þríþraut. Fyrst óku brúðhjónin um sjö kílómetra leið í hestvagni um borgina og var fagnað hvarvetna. Að því loknu reru þau út úr höfninni í Stokkhólmi og fengu svo loks að fagna í brúðkaupsveislunni, sem stendur fram eftir kvöldi.

Á Íslandi fagnaði sænska húsgagnaverslunin IKEA brúðkaupinu með sínum hætti, en konur sem mættu í brúðarkjól og létu taka af sér mynd í prinsessurúmi verslunarinnar fengu glaðning af tilefni dagsins. Alls komu 107 hvítklæddar konur í verslunina og samglöddust sænsku brúðhjónunum með þessum skemmtilega hætti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×