Lífið

Bara plata í Fríkirkjunni

Ísgerður heldur útgáfutónleika í Fríkirkjunni í dag.fréttablaðið/gva
Ísgerður heldur útgáfutónleika í Fríkirkjunni í dag.fréttablaðið/gva

„Fríkirkjan er bara fullkomin, þetta er svo skemmti­legt hús,“ segir leik- og söngkonan Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir.

Ísgerður gaf út barnaplötuna Bara plata á dögunum og heldur útgáfutónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík klukkan 14 í dag. Ekkert kostar inn á tónleikana og Ísgerður lofar að leynigestur stígi á svið. Bara plata er fyrsta plata Ísgerðar, en hún stýrði Stundinni okkar í Sjónvarpinu á árunum 2006-2008.

Er það rétt sem fólk í þínum bransa segir að börnin séu gríðarlega dómharðir áhorfendur? „Þau eru það náttúrulega.“

Og hvað, standa þau til dæmis upp og fara ef þeim leiðist? „Ég hef bara ekki lent í að þeim finnist ég leiðinleg (hlær) sjö, níu, þrettán.“

Ísgerður játar að börnin sýni mikla hörku þegar þau biðja um óskalag og virði tilfinningar skemmtikraftsins að vettugi þegar þeim mislíkar lagavalið. Ísgerður er ánægð með viðtökurnar og hefur þegar fengið góða dóma, t.d. frá börnum vina sinna og vinkvenna, sem heyra nú rödd vinkonu sinnar talsvert oftar en áður.

„Áður en ég gerði plötuna hugsaði ég ekki út í að allir vinir mínir myndu fá ógeð á mér,“ segir Ísgerður og hlær.

Þeir sem gefa út barnaplötu á Íslandi koma ekki fram á hefðbundnum tónleikastöðum. Við getum til dæmis ekki búist við að sjá Ísgerði troða upp á Players í Kópavogi. En hvernig ætlar hún að kynna plötuna? „Það eru náttúrulega alls kyns skemmtanir, til dæmis í kringum 17. júní. Svo er ég að hugsa um að fara í tónleikaferðalag um landið og plata einhverja sniðuga með mér.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.