Viðskipti innlent

Erum ekki að deyja úr þörf fyrir gjaldeyri

Gengið frá gjaldmiðlaskiptum Hu Xiaolian, aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabanka Kína, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri Seðlabanka Íslands, ganga frá samningi um gjaldmiðlaskipti milli bankanna. Fréttablaðið/GVA
Gengið frá gjaldmiðlaskiptum Hu Xiaolian, aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabanka Kína, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri Seðlabanka Íslands, ganga frá samningi um gjaldmiðlaskipti milli bankanna. Fréttablaðið/GVA

„Samningurinn er rammi sem eykur tiltrú og er ákveðin traustsyfirlýsing,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamning Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands, sem skrifað var undir í gærmorgun. Hu Xiaolian aðstoðarseðlabankastjóri skrifaði undir fyrir kínverska bankann.

Fjárhæð samningsins er 66 milljarðar króna eða 3,5 milljarðar kínverskra júana. „Gróft á litið 500 milljónir Bandaríkjadala,“ segir Már. Samningurinn gildir í þrjú ár og hægt verður að framlengja hann að gefnu samþykki beggja aðila.

Fyrst og fremst segir Már samninginn hugsaðan til að greiða fyrir utanríkisviðskiptum Íslands og Kína. „Hægt verður að fjármagna utanríkisviðskipti á milli landanna, án þess að nota endilega skiptanlegar myntir sem við erum með í okkar gjaldeyrisforða, svo sem Bandaríkjadal eða evrur.“

Már segir mjög erfitt að setja mælistiku á hvað gjaldmiðlaskiptasamningurinn við Seðlabanka Kína léttir miklum þrýstingi af gjaldeyrisforða Íslands. Létt hafi á þrýstingi við það að gengið var nýverið frá samningi um aflandseignir í krónum við Seðlabankann í Lúxemborg og þá sé hægt að draga á lán í framhaldi af því að lokið var annarri endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Við erum svo sem ekkert að deyja úr þörf fyrir gjaldeyri í augnablikinu,“ segir hann.

Már segir samninginn mjög mikilvægt skref í auknu samstarfi við kínverska seðlabankann. Hann segir málið hafa verið lengi í undirbúningi, en allt frá vormánuðum 2009 hafi seðlabankarnir verið í samskiptum um margvíslegt mögulegt samstarf.

„Svein Harald Øygaard átti fund með kínverska seðlabankastjóranum í maí 2009. Ég átti svo fund með honum úti í Basel í nóvember 2009,“ segir Már, en að auki fundaði hann með varaseðlabankastjóra Kína í Washington í apríl. „Núna þegar þessi heimsókn brast á opnaðist svo möguleikinn á að koma þessum samningi á.“

Már vildi ekki segja til um hvort farið hafi verið fram á annars konar lánafyrirgreiðslu við Seðlabanka Kína, svo sem lánalínu í Bandaríkjadölum. „Ég get ekki upplýst um hvaða mál við höfum rætt eða munum ræða við Seðlabanka Kína. Það verður bara að koma í ljós. Nú verður ekki sagt frá neinum afla fyrr en hann er kominn á land.“olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×