Innlent

Lára Óskarsdóttir: Enginn sem stoppaði mig

Lára Óskarsdóttir bauð sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Lára Óskarsdóttir bauð sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Valgarður
„Ég er bara rosalega ánægð með þessa niðurstöðu, ég er eins og hinir pólitíkusarnir að þegar ég tapa þá er ég ánægð," segir Lára Óskarsdóttir, sem bauð sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum um helgina. Ólöf Nordal þingmaður flokksins fékk 70% atkvæða en Lára fékk rúmlega 17%.

Lára hefur aldrei gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn áður en hefur verið skráð í hann í mörg ár. „Ég kem algjörlega óþekkt þarna inn og mér finnst framboðið hjá mér sýna að þetta er hægt og við erum í opnari flokk en margir vilja halda. Það var enginn sem stoppaði mig eða setti út á þessa leið mína," segir Lára.

Aðspurð hvort hún hafi búist við að fá jafn mikinn stuðning og raun ber vitni segir Lára að hún hafi ekki haft neinar væntingar. „17,4 prósent atkvæða er frábær árangur eftir 15 mínútna ræðu. Ég sendi ekki einn tölvupóst og hringdi ekki eitt símtal," segir Lára en margir voru hissa á henni á fundinum. „Ég tók bara þá ákvörðun að senda ekkert frá mér sem er vanhugsað og ákvað því að fara bara þessa leið."

Lára segist vera sátt með Ólöfu Nordal sem varaformann flokksins. „Hún er hörku kona sem er mjög þekkt innan flokksins, en mér finnst samt 17,4% svona miðað við litla kynningu sýna að fólk vill einhverjar breytingar. Mér skyldist á fólki að það hefði viljað fá fleiri konur, eða fólk þarna fram, fólk vildi hafa val," segir Lára að lokum.




Tengdar fréttir

Ólöf Nordal gleðst yfir mótframboði

„Það er bara mjög ánægjulegt að fólk hafi áhuga á að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa við flokkinn,“ segir Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Lára Óskarsdóttir íslenskukennari tilkynnti óvænt í dag að hún ætlaði að sækjast eftir varaformanni Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem hefst á morgun.

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Ólöf Nordal var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins með 70 prósentum greiddra atkvæða. Ólöf fékk 692 atkvæði en 893 tóku þátt í kjörinu. Lára Óskarsdóttir fékk 155 atkvæði eða 17 prósent og aðrir fengu minna. 30 skiluðu auðu.

Ákvað varaformannsframboð á hlaupum í Laugardal

Lára Óskarsdóttir íslenskukennari ætlar að bjóða sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á móti Ólöfu Nordal á landsfundinum sem verður haldinn um helgina. Hún segist hafa tekið ákvörðunina þegar hún var að hlaupa í Laugardalnum nýlega og tjáði fjölskyldu sinni í morgun frá framboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×