Innlent

Ólöf Nordal gleðst yfir mótframboði

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi til varaformanns flokksins.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi til varaformanns flokksins.
„Það er bara mjög ánægjulegt að fólk hafi áhuga á að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa við flokkinn," segir Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Lára Óskarsdóttir íslenskukennari tilkynnti óvænt í dag að hún ætlaði að sækjast eftir varaformanni Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem hefst á morgun.

„Mér finnst bara gaman að fólk hafi áhuga á flokksstarfinu, ég gleðst bara yfir því," segir Ólöf. Aðspurð segir hún framboð Láru ekki hafa komið sér á óvart. „Nei, ég hef alltaf búist við því að það geti verið þannig." En býst hún við fleiri framboðum á fundinum á morgun? „Ég hef ekki hugmynd um það, ég held mér bara við það sem ég er að gera. Ég finn víðtækan stuðning og finnst þetta bara vera skemmtilegt og hlakka til að fara á fundinn."

Lára sagði í samtali við Vísi í morgun að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram þegar hún var úti að hlaupa í Laugardalnum nýlega og tilkynnt fjölskyldu sinni um framboðið í morgun.

Aðspurð segist Ólöf ekki búast við miklum átökum á fundinum á morgun. „Nei, ég held að við séum bara að fara stilla saman okkar strengi og fara blása til sóknar, þetta verður bara skemmtilegt," segir Ólöf að lokum.


Tengdar fréttir

Ákvað varaformannsframboð á hlaupum í Laugardal

Lára Óskarsdóttir íslenskukennari ætlar að bjóða sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á móti Ólöfu Nordal á landsfundinum sem verður haldinn um helgina. Hún segist hafa tekið ákvörðunina þegar hún var að hlaupa í Laugardalnum nýlega og tjáði fjölskyldu sinni í morgun frá framboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×