Lífið

Svaraði í símann fyrir leikhúsgest

Guðjón Þorsteinn Pálmarsson greip til þess ráðs að svara í síma fyrir leikhúsgest sem hafði truflað sýninguna með sælgætisbréfaskrjáfi.
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson greip til þess ráðs að svara í síma fyrir leikhúsgest sem hafði truflað sýninguna með sælgætisbréfaskrjáfi.
„Ég held að ég hafi ekki brotið neinar reglur sýningarinnar en ég komst ansi nálægt því,“ segir Guðjón Þorsteinn Pálmarsson sem leikur í sýningu Borgarleikhússins, Eilífri óhamingju, en hann svaraði í símann fyrir leikhúsgest sem kom á sýninguna í vikunni. Guðjón viðurkennir að hann hafi aðeins misst stjórn á sjálfum sér.

Forsagan er sú að á umræddri sýningu var gestur sem hafði með sér töluvert magn af sælgæti inn í salinn. Gesturinn virtist hafa einstakt lag á að velja sér sætindi með nógu háværum umbúðum og lét sér í léttu rúmi liggja að hann var á leiksýningu. Þegar töluvert var liðið á sýninguna og Sara Dögg Ásgeirsdóttir, meðleikkona Guðjóns í verkinu, var að flytja hjartnæma og sorglega einræðu um barnamissi dró umræddur gestur upp feiknastórt súkkulaði og gæddi sér á því með slíkum látum að það fór ekki fram hjá neinum. Guðjón segist þá hafa endanlega misst stjórn á sér. „Ég tók með mér plastglas sem lá á sviðinu, gekk upp að gestinum og lét hann hafa það með þeim orðum að þetta glas væri miklu betra, það gæfi nefnilega frá sér meiri hávaða,“ útskýrir Guðjón.

Til að bæta gráu ofan á svart þá hringdi sími umrædds gest á meðan Guðjón stóð yfir honum. Og þá var ekkert um annað að ræða fyrir Guðjón en að svara í símann. „Þetta reddaðist alveg fyrir horn en ég held að ég eigi aldrei eftir að lenda í öðru eins. Við höfum alveg stoppað sýningar út af gsm-símum en þetta var sennilega það rosalegasta.“ - fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.