Innlent

Neyðarhnappur á Facebook í vinnslu hér á landi

Notendum Facebook-samskiptasíðunnar í Bretlandi hefur verið gert mögulegt að setja upp neyðarhnapp á síðum sínum. Þannig geta þeir látið vita af hvers kyns óeðlilegu athæfi fólks gagnvart þeim.

Hnappurinn er sérstaklega ætlaður börnum og unglingum sem nota síðuna. Tilkynningar í gegnum hnappinn munu bæði berast til Facebook og einnig til Ceop, sem er opinber eftirlitsstofnun með barnavernd í Bretlandi. Ceop mun veita ráð um hvernig á að bregðast við mögulegum ógnum á netinu en það var stofnunin sem kallaði eftir því að hnappurinn yrði settur upp. Stjórnendur Facebook voru upphaflega á móti því og töldu eigið öryggiskerfi duga. Aðrar samskiptasíður, til dæmis Myspace, hafa tekið neyðarhnappinn upp.

Þrýstingur á stjórnendur Facebook jókst eftir að sautján ára gamalli breskri stúlku, Ashleigh Hall, var nauðgað og hún myrt af manni sem hún kynntist á Facebook. Maðurinn þóttist vera jafnaldri hennar en var í raun 33 ára gamall dæmdur kynferðisbrotamaður.

Mjög brýnt er að auðvelt sé að tilkynna um allt sem er óeðlilegt á félagslegum síðum eins og Facebook, segir Guðberg K. Jónsson, formaður SAFT, netöryggismiðstöðvar Íslands. Á Íslandi sé einnig verið að vinna í þessum málum. „Barnaheill rekur svokallaða ábendingarlínu sem er hönnuð sérstaklega til að tilkynna um kynferðisafbrot gegn börnum á netinu," segir Guðberg. Hann segir að síðastliðið ár hafi verið unnin forvinna fyrir endurhönnun á þessum ábendingar- og neyðarhnappi.

„Vonandi getum við kynnt þennan hnapp í haust. Hann verður kynntur með þeim hætti að þeim sem búa til eða dreifa efni á netinu og halda úti vefsíðum þyki eftirsóknarvert að setja hnappinn upp hjá sér." Hægt verður að koma hnappinum upp á hvaða síðu sem er. „Á þessum tímapunkti munum við ræða við Face­book líka um möguleikann á að bjóða upp á þennan hnapp." Það eru þó ekki bara börn sem þurfa að vara sig á netinu heldur er þar alls kyns glæpa- og svikastarfsemi í gangi, segir Guðberg. Nauðsynlegt sé að auðvelt sé að tilkynna um slíkt og er stefnt á að íslenski hnappurinn verði auðveldur og aðgengilegur í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×