Erlent

Tré útgáfa af Stonehenge fundin á Salisbury sléttu

Óli Tynes skrifar
Ratsjármynd af neðanjarðarhringnum.
Ratsjármynd af neðanjarðarhringnum.

Alþjóðleg sveit fornleifafræðinga hefur fundið nýtt mannvirki neðanjarðar tæpan kílómetra frá hinu fornfræga Stonehenge á Salisbury sléttu í Englandi.

Þetta mannvirki er hringlaga eins og Stonehenge en hefur verið gert úr trjábolum en ekki risastórum steinblokkum eins og það sem ofan jarðar stendur.

Vísindamennirnir eru frá Bretlandi, Austuríki, Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð. Þeir voru rétt að byrja að kortleggja Stonehenge svæðið upp á nýtt þegar þeir fundu nýja hringinn.

Við kortlagninguna nota þeir jarðratsjár sem eru neðan á litlum traktorum. Má kannski helst líkja við garðsláttutraktora. Með þessum vélum komast þeir margfalt hraðar yfir en með eldri tækjum.

Vísindamennirnir telja að trjábola-mannvirkið hafi verið reist um svipað leyti og Stonehenge sjálft eða fyrir um 4500 árum.

Þeir eru að vonum himinlifandi og telja þetta vísbendingu um að þeir eigi eftir að gera fleiri stórmerkar uppgötvanir á Salisbury sléttunni.

Ekki hafa verið gerðar neinar áætlanir um uppgröft á nýja svæðinu, enda er það svo nýlega fundið að vísindamennirnir eru varla búnir að átta sig á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×