Viðskipti innlent

Tækifæri í lækkandi lánshæfi hjá ríkinu

Ákvarðanir greiningarfyrirtækjanna gætu torveldað fjármögnun þeirra orkufreku uppbyggingarverkefna sem fara á í hér á landi á árinu, segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.Fréttablaðið/Valli
Ákvarðanir greiningarfyrirtækjanna gætu torveldað fjármögnun þeirra orkufreku uppbyggingarverkefna sem fara á í hér á landi á árinu, segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.Fréttablaðið/Valli
Alþjóðleg greiningarfyrirtæki hafa undanfarið breytt horfum fyrir lánshæfismat íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Eitt greiningarfyrirtækjanna hefur þegar fellt lánshæfismat ríkisins úr svokölluðum fjárfestingarflokki í ruslflokk, og stutt gæti verið í að önnur fari sömu leið.

Síðast í gær tilkynnti greiningarfyrirtækið Moodys að það hefði breytt horfum fyrir lánshæfismat Íslands úr stöðugum í neikvæðar. Matið er í dag neðst í svokölluðum fjárfestingarflokki, og vantar lítið á hjá bæði Moodys og Standard & Poors að matið detti niður í ruslflokk.

Ekki er ástæða til að gera of mikið úr því að greiningarfyrirtækin breyti horfum á lánshæfismati ríkisins í neikvæðar, segir Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Íslenska ríkið, sem og aðrir íslenskir lántakendur, er í þeirri stöðu að enginn möguleiki er á að sækja lán á erlendan markað, til þess eru of mörg mál óuppgerð eftir hrunið, segir Ólafur. Þar sem lánshæfismatið þjóni þeim tilgangi að gera erlendum lánveitendum og fjárfestum kleift að meta lánshæfið skipti það í raun litlu þegar engin lán séu tekin. Þó sé það vitaskuld lakara þegar matið breytist til hins verra.

Í lækkandi lánshæfismati felast raunar tækifæri fyrir Seðlabanka Íslands, sem leitast nú við að kaupa skuldabréf ríkisins í eigu erlendra aðila, segir Ólafur. Lækkað mat þrýsti niður verði bréfanna á eftirmarkaði, og því sé möguleiki á að Seðlabankinn fái leyst bréfin til sín á betra verði en ella.

„Þetta þýðir að unnt kann að reynast að gera upp erlend lán ríkissjóðs á verði undir nafnvirði bréfanna enn frekar en þegar hefur verið tilkynnt," segir Ólafur.

Ólafur segir það naumast hafa úrslitaáhrif á hversu hratt lánshæfismat Íslands rísi úr öskustónni þótt matsfyrirtækin setji lánshæfismatið niður í ruslflokk. Lánshæfismatið muni styrkjast á ný þegar góðar fréttir taki að berast af íslenska efnahagslífinu. Þegar góður árangur náist á þeim vettvangi á nýjan leik fari matið upp aftur, sér í lagi ef árangurinn verði umfram væntingar.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir þessar breytingar endurspegla þá þröngu stöðu sem ríkissjóður sé í. Hann segir það þó enn sína skoðun að matsfyrirtækin séu of svartsýn í spám sínum fyrir Ísland. Ríkið sé ekki mjög skuldsett í alþjóðlegu samhengi, fjárlagahallinn sé minni en spáð hafi verið og minni en víða í nágrannalöndunum.

Tvennt þarf til að koma svo ástandið taki að lagast á ný, segir Gylfi. Til að byrja með þurfi að koma áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skrið á nýjan leik, og ljúka annarri endurskoðun áætlunarinnar. Þá hafi Icesave-málið mikil áhrif á lánshæfismatið, og löngu ljóst að koma þurfi því máli í höfn.

Lækkandi lánshæfismat og versnandi horfur hafa óveruleg áhrif, segir Gylfi. Hvorki ríkið né aðrir hafi verið að sækja fé á erlenda markaði frá hruni, svo skammtímaáhrifin verði ekki mikil.

Ákvarðanir greiningarfyrirtækjanna gætu þó torveldað fjármögnun þeirra orkufreku uppbyggingarverkefna sem fara á í hér á landi á árinu, að mati Gylfa. Gylfi segir töfina af því að hafa ekki lokið Icesave-málinu þegar búna að kosta íslenskt þjóðarbú tugi milljarða króna. Kostnaðurinn komi ekki allur fram strax, en fyrirtæki eigi eftir að greiða hærri vexti lengur af erlendu fjármagni þar sem dregið hafi verið að ljúka málinu.

brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×