Lífið

Hafnfirðingar fá gamla ísinn

Eigandinn Baldur Bjarnason ásamt dætrum sínum við nýja útibúið í Hafnarfirði sem verður opnað um miðjan maí.fréttablaðið/stefán
Eigandinn Baldur Bjarnason ásamt dætrum sínum við nýja útibúið í Hafnarfirði sem verður opnað um miðjan maí.fréttablaðið/stefán

Ísbúð Vesturbæjar opnar útibú á horni Strandgötu og Fjarðargötu í Hafnarfirði um miðjan maí. Hafnfirskir aðdáendur ísbúðarinnar sem hafa þurft að keyra til Reykjavíkur eftir uppáhaldsísnum sínum geta því sparað bensínkostnaðinn verulega í sumar.

„Þegar við fengum þetta pláss alveg niðri í miðbæ Hafnarfjarðar var ekkert annað hægt en að fara bara til þeirra. Þetta er orðið svo langt að keyra og bensínið er komið í 200 kall,“ segir Baldur Bjarnason, eigandi Ísbúðar Vesturbæjar. „Við finnum fyrir miklum áhuga á þessu svæði. Við höldum að það sé hægt að reka ísbúð þarna. Ef það er ekki hægt verður henni bara lokað en ég hef bullandi trú á þessu,“ segir Baldur.

Framkvæmdir standa yfir þessa dagana í nýja útibúinu, sem verður 100 fermetrar að stærð. Baldur lætur ekki bágt efnahagsástand á Íslandi á sig fá. Á meðan flestir eru að minnka við sig opnar hann nýja ísbúð með bros á vör. Kreppan hefur þó haft sín áhrif.

„Fólk er enn þá að kaupa ís á fleygiferð en kreppan kemur hinum megin frá, eða í innkaupunum. Við finnum fyrir henni í sælgætinu. Þegar það er 150 prósenta hækkun í innkaupunum verðum við að hækka en við reynum að halda því algjörlega í lágmarki.“

Ísbúð Vesturbæjar við Hagamel er ein rótgrónasta ísbúð landsins, enda hefur hún verið starfandi í fjörutíu ár. Nýtt útibú var opnað við Grensásveg fyrir tveimur árum og að sögn Baldurs hefur sá rekstur gengið vel. „Við erum með öðruvísi ís en allir aðrir. Það er enginn annar með hann, hvað sem menn segja,“ segir hann og á þar við hinn vinsæla gamla ís. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.