Viðskipti innlent

Akureyri aflar sér tveggja milljarða í skuldabréfaútboði

Saga Capital Fjárfestingarbanki og Íslensk verðbréf hafa lokið við að selja skuldabréf fyrir Akureyrarbæ upp á 2 milljarða króna. Skuldabréfin voru seld í lokuðu skuldabréfaútboði til lífeyrissjóða. Um er að ræða 34 ára jafngreiðslubréf sem bera 4,35% vexti.

Í tilkynningu segir að lántakan sé í samræmi við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og með skuldabréfasölunni er bærinn að endurfjármagna hluta af eldri lánum sínum.

Saga Capital og Íslensk verðbréf sáu samhliða um sölu skuldabréfanna og mun Saga Capital sjá um að skrá þau í Kauphöll Íslands.

Saga Capital er eini sérhæfði fjárfestingarbanki landsins og hefur að undanförnu verið leiðandi á markaði í sölu skuldabréfa fyrir íslensk sveitarfélög og aðra opinbera og hálfopinbera aðila. Nú síðast sá Saga Capital um 600 milljón króna skuldabréfaútboð fyrir Mosfellsbæ.

Íslensk verðbréf eru sjálfstætt og sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem stýrir yfir 100 milljörðum króna fyrir einstaklinga og fagfjárfesta, einkum og sér í lagi lífeyrissjóði. Félagið hefur starfað frá árinu 1987 og er elsta eignastýringarfyrirtæki Íslands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×