Innlent

Jóhanna: Við þurfum að breikka faðminn

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi flokksins að fjögur höfuðmál muni skipta miklu máli um þróun málefnagrundvallar flokkakerfisins á næstu árum og heildarhagsmuni þjóðarinnar. Innganga í Evrópusambandið, að festa auðlindir í stjórnarskrá sem sameign þjóðarinnar, nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og ný stjórnarskrá eru mál af þessu tagi að mati Jóhönnu og segir hún að flokkurinn eigi að taka forystu í þeim efnum. Öll þessi mál vill Jóhanna leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslum. Að sögn Jóhönnu þarf flokkurinn einnig að breikka faðminn og bjóða fleiri velkomna í flokkinn.

„Ég nefni ESB í þessu sambandi - eitt mikilvægast mál næstu ára. Samfylkinginn er eini flokkurinn sem hefur skýra stefnu í þessu máli en aðrir flokkar, þrátt fyrir skiptar skoðanir innan þeirra raða berjast í raun gegn þessu grundvallar hagsmuna máli Íslands. Ég nefni átökin um náttúruauðlindir Íslands - vatnið, jarðhitann, fiskinn og aðrar gjafir náttúrunnar. Skynsamleg nýting þessara auðlinda, samfara réttlátri skiptingu arðsins meðal þjóðarinnar, er eitt af stærstu verkefnum stjórnmálanna á komandi árum. Þá vakt verðum við jafnaðarmenn að standa af einurð - mun betur en við höfum gert á undanförnum árum. Íhaldið hefur allt of lengi komist upp með að standa í vegi fyrir því að risastór hagsmunamál þjóðarinnar nái fram að ganga. Það á ekki síst við um að auðlindirnar verði bundnar í stjórnarskrá sem sameign þjóðarinnar," sagði Jóhanna í ræðu sinni. „Nú er hinsvegar okkar tími kominn - sem forystuafl í ríkisstjórn að ná þessu markmiði."

Jóhanna vill að Samfylkingin heiti því að það verði í forgangi að festa auðlindirnar sem almannaeign í stjórnarskránna áður en næst verður gengið til kosninga. „Heitum því að stýra umsóknarferlinu við ESB í farsæla höfn. Heitum því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá á vakt okkar í stjórnarráðinu. Heitum því, góðir félagar, að þjóðin fá nýtt sanngjarnt fiskveiðistjórnunarkerfi sem þjóni almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum á meðan við stýrum þessari þjóðarskútu. Öll þessi mál eigum við að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslum. Um þau á þjóðin að kveða upp sinn dóm. Þessi fjögur mál verða okkar stóru verkefni og markmið á næstu misserum."

„Ég ber mína ábyrgð"

Jóhanna sagði að vissulega séu spennandi og sögulegir tímar framundan. „Mun þjóðin vilja eitt kjördæmi? Mun þjóðin vilja tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál og færa þannig valdið til fólksins? Mun hún vilja sameign þjóðarinnar á auðlindum? Mun þjóðin vilja þjóðkjörin forsætisráðherra og afnám forsetaembættis? Mun þjóðin vilja stjórnarskrárbundið bann við þátttöku í stríði?," spurði Jóhanna.

„Ég ber auðvitað mína ábyrgð sem formaður flokksins. Sjálfsagt má rekja miður góða útkomu flokksins víða um land til þeirra erfiðu verka sem ríkisstjórn mín stendur í og vafalaust hefði ég getað staðið mig betur sem formaður ykkar og forsætisráðherra." Að sögn Jóhönnu er hinsvegar engan bilbug á sér að finna á meðan hún nýtur trausts flokksfélaga. „Undan þeirri ábyrgð skorast ég ekki."

„Okkur Íslendingum hefur verið seld sú hugmyndafræði að ríkisrekstur sé af hinu illa - samfélagsþjónusta sé vond og markmið stjórnmálanna ætti að snúast um að lámarka umfang ríkisins," sagði Jóhanna að auki. „Við í Samfylkingunni höfum mengast um of af þessari hugmyndafræði - svokölluðum Blair-isma - og við höfum gengið allt of langt í þá átt að tala samfélagsþjónustuna niður. Ég tek Íbúðalánasjóð sem dæmi í þessum efnum - hvar værum við stödd í dag, ef Íbúðalánasjóðs hefði ekki notið við og einkaaðilar hefðu tekið allan markaðinn yfir eins og íhaldið hefur ítrekað reynt. Einkaaðilar áttu að sjá um háskólana, sjúkrahúsin, heilsugæsluna, leikskólana, grunnskólana, framhaldsskólana, löggæsluna. Allt var betur komið í höndum einkaaðila að mati íhaldsins og af þessu eimir enn. Við þurfum að standa með samfélagsþjónustunni - standa með okkar sameiginlegu samfélagsverkefnum og tala þeirra máli. Þar getum við og eigum að standa okkur betur en á liðnum árum og á sama tíma að virkja markaðsöflin í þágu almannahagsmuna."

„Fólkinu sem sér aðild að Evrópusambandinu og upptöku Evru sem hina réttu leið. Fólkinu sem vill standa vörð um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum landsins og sjálfbæra nýtingu þeirra þjóðinni til hagsbóta. Fólkinu sem vill kröftuga uppbyggingu sjálfbærs atvinnulífs, þar sem hagur launþega og samfélagsgildi eru í hávegum höfð í stað einstaklingshagsmuna og ofsagróða. Fólkinu sem vill að Ísland verði fyrirmyndarríki í mannréttindamálum, jafnréttismálum, lýðræðisþróun og baráttu fyrir hagsmunum og kjörum þeirra sem lakast standa. Við eigum að leita til þessa fólks, bæði í gegnum flokksstarf, viðhorfshópa, laustengd félög og með öllum þeim ráðum sem við höfum. Við þurfum að vinna með þeim sem styðja baráttumálum okkar jafnaðarmanna við hvert mögulegt tækifæri."






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×