Viðskipti innlent

Lyf og heilsa sektuð um 130 milljónir fyrir markaðsmisnotkun

Mynd Vigfús
Mynd Vigfús

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt er í dag er komist að þeirri niðurstöðu að Lyf og heilsa hf. (L&h) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem höfðu það markmið að hindra að nýr keppinautur í lyfsölu á Akranesi næði fótfestu á markaðnum.

Í tilkynningu segir að aðgerðirnar voru til þess fallnar að senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna að keppa við L&h. Telur Samkeppniseftirlitið að brotin hafi verið alvarleg og leggur sekt á L&h að fjárhæð 130 milljónir kr.

Aðdragandi málsins er að sumarið 2007 hóf nýtt apótek á Akranesi, Apótek Vesturlands (AV), samkeppni við apótek í eigu L&h sem var fyrir á staðnum. Í kjölfarið barst Samkeppniseftirlitinu ábending um að L&h hefðu gripið til aðgerða til að hindra að AV næði að hasla sér völl á Akranesi.

Samkeppniseftirlitið ákvað að taka málið til rannsóknar og framkvæmdi húsleit hjá L&h þann 17. September 2007. Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og lauk gagnaöflun í nóvember 2009.

L&h hafa við meðferð málsins hafnað því alfarið að fyrirtækið væri markaðsráðandi. Þurfti Samkeppniseftirlitið því að taka þetta atriði til skoðunar, skilgreina samkeppnismarkaði málsins og meta stöðu fyrirtækja á honum. Hefur ákvörðunin að geyma ítarlega greiningu á markaði fyrir smásölu lyfja, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Á árinu 2006 ógilti Samkeppniseftirlitið samruna systurfélags L&h (DAC ehf.) við Lyfjaver, sem er keppinautur L&h. Í því máli var lagt til grundvallar að L&h og Lyfja væru í sameiginlega markaðsráðandi stöðu á höfuðborgarsvæðinu og að samruninn hefði styrkt hina sameiginlegu markaðsráðandi stöðu. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti ákvörðunina.

Í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu felst í aðalatriðum að mögulegt er fyrir viðkomandi fyrirtæki að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Eru fyrirtækin þannig í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð. Í ljósi mótmæla L&h þurfti í þessu máli að rannsaka hvort þessi staða væri enn fyrir hendi. Gögn sem aflað var í húsleitinni hjá L&h staðfesta þetta.

Gögn málsins sýna að L&h urðu þess áskynja í lok ársins 2006 að fyrirhugað væri að opna nýtt apótek á Akranesi en L&h ráku á þessum tíma eina apótekið þar. Ljóst er að L&h höfðu skýran ásetning til þess að koma í veg fyrir þessa nýju samkeppni m.a. með eftirfarandi aðgerðum:

Fyrirsvarsmenn L&h höfðu samband við lyfjafræðinginn sem vann að stofnun AV og reyndu að fá hann til að hætta við opnun apóteks á Akranesi og gerast þess í stað starfsmaður L&h. Lyfjafræðingurinn hafnaði þessu tilboði.

Innan L&h var rætt um að vera fyrri til og opna annað apótek á Akranesi (lágvöruverðsapótek). Var sagt að þetta myndi „girða alveg fyrir aðra samkeppni hér".

L&h beittu sér gagnvart Högum, eiganda Bónuss sem er í sama húsnæði og AV hafði tryggt sér sölupláss, í því skyni að hindra innkomu hins nýja keppinautar.

Í samskiptum við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beittu L&h sér gegn því að AV fengi lyfsöluleyfi.

Þessar aðgerðir dugðu ekki til að koma í veg fyrir að AV hæfi starfsemi og gripu L&h þá til markaðslegra aðgerða gegn keppinautnum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×