Innlent

ASÍ: Lítið bólar á verðlækkunum á matvöru

MYND/Pjetur

Þrátt fyrir samfellda styrkingu krónunnar frá áramótum bólar enn lítið á verðlækkunum á innfluttum neysluvörum að sögn ASÍ. Í frétt á heimasíðu sambandsins segir að forsvarsmenn verslunarinnar hafi fullyrt að verslunin hafi almennt tekið á sig afkomuskerðingu vegna veikra stöðu krónunnar og að það ráðist einkum af veltuhraða hversu hratt styrking á gengi krónunnar gæti í vöruverði.

„Sé verðþróun innfluttra vara skoðuð frá ársbyrjun 2008 þegar krónan tók að veikjast má sjá að verðlag á helstu flokkum innfluttra neysluvara hækkaði framan af nokkurn veginn samhliða veikara gengi krónunnar en hefur nú, þrátt fyrir styrkingu, ýmist haldið áfram að hækka eða nánast staðið óbreytt undanfarna mánuði," segir á heimasíðu ASÍ.

70 prósenta hækkun á innfluttri matvöru

Þá er bent á að flestir innfluttir vöruflokkar hafi hækkað um eða yfir 50 prósent undanfarið eitt og hálft ár á sama tíma og gengi krónunnar hefur veikst um ríflega 70 prósent. „Innfluttar mat- og drykkjarvörur hafa hækkað enn meira eða um tæplega 70% frá því í ársbyjun 2008 og jafnvel þótt ætla megi að veltuharði þessara vara sé að jafnaði mikill hefur verðlag þeirra nánat verið óbreytt undanfarna mánuði þrátt fyrir hagstæðara gengi."

Auk innkaupsverðs ræðst endanlegt verð innfluttra vara af ýmsum innlendum kostnaðarþáttum sem ASÍ segir ljóst að hafa ekki hækkað í viðlíka takti og gengi krónunnar. „Þannig eru engin tilefni til þess að verðlag innfluttra vara hækki í fullu samræmi við veikara gengi krónunnar og ekki verður af þessu ráðið að veik staða krónunnar sé það eina sem skýri miklar verðhækknir á innfluttum vörum undanfarin misseri. Af þessu verður heldur ekki séð að sú afkomuskerðing sem forsvarsmenn verslunarinnar tala um að verslunin hafi tekið á sig vegna gengislækkunarinnar sé almennt til komin vegna þess að haldið hafi verið aftur af verðhækkunum til neytenda. Neytendur spyrja því með réttu hvenæar búast megi við því að merki um bætta stöðu krónunnar sjáist í vöruverði og mun verðlagseftirlit ASÍ fylgjast náið með þróuninni á næstunni," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×