Innlent

Alþjóðahvalveiðiráðið óstarfhæft vegna deilna

Hvalveiðar eru gríðarlega umdeildar.
Hvalveiðar eru gríðarlega umdeildar.

Formaður og varaformaður Alþjóðahvalveiðiráðsins hafa lagt fram tillögu sem kveður á um að aðeins megi nota hvalaafurðir innanlands. Samkvæmt tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu þá þýðir sú klausa í raun bann á milliríkjaviðskiptum með hvalaafurðir.

Tillagan verður svo tekin fyrir á ársfundi ráðsins í Agadir í Marokkó í júní næstkomandi.

Ráðið hefur verið verið óstarfhæft samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins en áttatíu og átta ríki eiga þar sæti. Tilgangur þess er að leita málamiðlunarsamkomulags um hvalveiðar en mikið ber í milli.

Sjávarútvegsráðuneytið segir að íslensk stjórnvöld geta ekki fallist á umrætt bann við milliríkjaviðskiptum með hvalaafurðir. Þar segir að í fyrsta lagi geta Íslendingar sem útflutningsþjóð sjávarafurða ekki fallist á að skorður séu settar á viðskipti með sjávarafurðir sem fengnar eru með sjálfbærum hætti.

Í öðru lagi falla viðskipti utan valdsviðs Alþjóðahvalveiðiráðsins og er ráðið því ekki bært til að fjalla um þau. Jafnframt telur ráðuneytið að þeir kvótar sem lagðir hafa verið til fyrir Ísland, séu langt undir sjálfbærnimörkunum og í því sambandi sé rétt að hafa í huga að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar hljóðar upp á 200 langreyðar og 200 hrefnur á ári.

Fyrrnefnda tillagan felur í sér árlegum kvóta fyrir Ísland á tímabilinu 2011-2020 upp á 80 langreyðar og 80 hrefnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×