Viðskipti innlent

Fær greidda þóknun fyrir neyslu sína á Íslandi

Jón Ásgeir Jóhannesson. Eignir hans verða kyrrsettar þangað til niðurstaða liggur fyrir í skaðabótamáli sem slitastjórn Glitnis höfðaði á hendur honum hér á landi.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Eignir hans verða kyrrsettar þangað til niðurstaða liggur fyrir í skaðabótamáli sem slitastjórn Glitnis höfðaði á hendur honum hér á landi.
Sjö hundruð og fimmtíu þúsund króna þóknun 365 miðla til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er greidd út mánaðarlega svo hann geti greitt fyrir neyslu sína á Íslandi, að því er fram kemur í greinargerð lögmanna Glitnis fyrir breskum dómstólum. Þrotabú bankans telur að hegðun Jóns Ásgeirs endurspegli mjög lágt viðskiptasiðferði.

Slitastjórn Glitnis telur að hegðun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í tengslum við lán Glitnis banka til félagsins FS38 á árinu 2007 endurspegli mjög lágt viðskiptasiðferði, skort á ráðvendni og skeytingarleysi gagnvart hagsmunum kröfuhafa bankans. Þetta kemur farm í greinargerð lögmanna Glitnis fyrir breskum dómstólum vegna máls sem þrotabú Glitnis höfðaði til að kyrrsetja eignir Jóns Ásgeirs. Glitnir lánaði sem kunnugt er félaginu FS38, sem var í eigu Pálma Haraldssonar, sex milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Aurum Holdings á yfirverði af Fons, sem einnig var í eigu Pálma, en einu tryggingarnar fyrir láninu voru hlutabréfin í Aurum. Jón Ásgeir gaf fyrirmæli um viðskiptin í tölvupósti til Lárusar Welding, þáverandi bankastjóra, eins og frægt er orðið.

Ýmislegt annað forvitnilegt kemur fram í greinargerð lögmanna slitastjórnar Glitnis banka vegna máls um kyrrsetningu á eignum Jóns Ásgeirs. Eins og komið hefur fram er þar greint frá mánaðarlegri 4.000 punda greiðslu, jafnvirði 750 þúsund króna, sem Jón Ásgeir fær í þóknun frá 365 miðlum, en fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu eiginkonu hans. Í greinargerð slitastjórnarinnar segir að þær skýringar hafi verið gefnar að um sé að ræða fyrirkomulag sem í grundvallaratriðum hafi verið komið á svo Jón Ásgeir gæti greitt kostnað við mat og uppihald á Íslandi („living expenses") eða með öðrum orðum neyslu. Í greinargerð lögmannanna segir að þær skýringar Jóns Ásgeirs, að hann hafi gleymt þessu fyrirkomulagi, séu óásættanlegar. Stjórnendur 365 miðla hafa gefið þær skýringar á greiðslum til Jóns Ásgeirs að hann veiti fyrirtækinu ráðgjöf varðandi rekstur og stefnumótun. Þá hafi ráðgjöf hans reynst fyrirtækinu mikilvæg og gagnleg.

Eignir Jóns Ásgeirs á heimsvísu verða kyrrsettar þangað til niðurstaða liggur fyrir í skaðabótamáli vegna Aurum Holdings sem þrotabú Glitnis höfðaði á hendur honum hér á landi.

Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er stjórnarformaður 365 miðla sem eiga og reka fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×