Viðskipti innlent

Átján styrkir veittir til að rannsaka innlenda orkugjafa

Mynd/GVA
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsóknar- og kynningarverkefna fyrir árið 2010. Styrkirnir eru veittir til verkefna sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun. Veittir eru 18 styrkir að upphæð 22,8 milljónir króna. Alls bárust 52 umsóknir um samtals 126 m.kr. og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.

Stærsti styrkurinn nú fer til verkefnis um eldsneytisframleiðslu úr örverum, og annar litlu minni til lífmassaverkefnis. Að öðru leyti má segja að samgöngur - rafbílar og hjólreiðar - og sjávarútvegur skipi öndvegi við styrkúthlutunina, enda einna mest þörf á orkuskiptum í þessum greinum. Tveir styrkir tengjast landbúnaði og aðrir tveir rekstri smávirkjana.

Rannsóknar- og fræðslustyrkir eru veittir árlega úr Orkusjóði. Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn. Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.

Orkuráð starfar í tengslum við Orkustofnun og er meginhlutverk þess að sjá um rekstur Orkusjóðs. Sjóðurinn veitir áhættulán til jarðhitaverkefna og styrki til rannsókna og fræðsluverkefna um endurnýjanlega orku, orkunýtingu og orkusparnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×