Viðskipti innlent

Stefnir skilanefnd fyrir ærumeiðingar

Jón Ásgeir Jóhannesson ætlar að stefna skilanefndinni. Mynd/ Anton.
Jón Ásgeir Jóhannesson ætlar að stefna skilanefndinni. Mynd/ Anton.
Jón Ásgeir Jóhannesson, einn þeirra sem skilanefnd Glitnis hefur stefnt til greiðslu sex milljarða króna skaðabóta, ætlar að stefna skilanefndinni fyrir ærumeiðandi aðdróttanir sem fram koma í stefnu hennar og fyrir að hafa vísvitandi breytt tölvugögnum.

„Þessi stefna virðist eingöngu hafa það markmið að vera mannorðsmeiðandi," segir Jón í samtali við Fréttablaðið. Hann ætlar að krefjast þess að stefnunni verði vísað frá dómi, enda sé hún uppfull af rangindum.

Jón segir enga tilviljun að stefnan komi fram núna. Hún komi vísvitandi fram þegar stutt sé í birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir hrunsins.

Jón þvertekur fyrir að hafa hagnast persónulega á láni Glitnis til Fons, félags Pálma Haraldssonar. Hann segir að tjón Glitnis hefði aldrei geta orðið sex milljarðar króna þrátt fyrir að bankinn hafi lánað Fons þá upphæð, 4,8 milljarðar af láninu hafi aldrei farið út úr Glitni, heldur hafi verið notaðir til að greiða upp skuldir. Einn milljarð hafi Pálmi notað til að greiða upp skuld við Kaupþing í Lúxemborg.

Í stefnunni er vitnað í tölvupóst Jóns til Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis. Þar ýtir Jón á eftir því að málum sé lokið, og segir að lokum: „Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður [Glitnis banka]."

Jón þvertekur fyrir að hann hafi með þessu verið að hóta Lárusi, og segir þessa setningu hafa verið grín. Það hafi verið augljóst á tölvupóstinum, enda broskarl fyrir aftan ummælin. Broskarlinn hafi hins vegar verið klipptur út í stefnu Glitnis til að gera setninguna tortryggilega.

Lán Glitnis til Fons var lánað áfram, og notað til að kaupa hlut Fons í breska skartgripafyrirtækinu Aurum Holding Limited. Jón Ásgeir hafnar því algerlega sem fram kemur í stefnunni að fyrirtækið Aurum hafi ekki verið sex milljarða króna virði. Hann vísar til verðmats Capacent á fyrirtækinu því til staðfestingar. Þá hafi tilboð upp á sex milljarða komið frá fyrirtæki í Dubaí.

Þess ber að geta að Jón Ásgeir er eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda fjölmiðlafyrirtækisins 365, sem gefur meðal annars út Fréttablaðið. - bj







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×