Innlent

Þór Saari: Þeir gengu alveg fram af mér

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

„Þeir gengu alveg fram af mér og að ég held flestum fundarmönnum með afstöðu sinni til þessara dóma og með afstöðu sinni til almennings í landinu. Mér líst miklu verr á stöðuna eftir þennan fund þó hann hafi vissulega verið upplýsandi," segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

Forsvarsmenn helstu fjármálafyrirtækjanna mættu á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Mikil óvissa ríkir um útreikning á gengistryggðum lánum eftir dóm Hæstaréttar í síðustu viku. Fjármálafyrirtæki kalla eftir leiðbeiningum frá stjórnvöldum um hvernig taka skal á dómi Hæstaréttar og stjórnvöld hafa beðið eftir viðbrögðum banka og eignaleigufyrirtækja.

„Það kom alveg skýrt fram að þeir ætla að beita öllum úrræðum til að komast hjá því að almenningur fái rétt sinn í gegn í þessu máli," sagði Þór í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og bætti við að það komi til með að þýða þúsundir dómsmála. Þór sagði málið ekki snúast um það hvort einhver fjármálastofnun standi eða falli.

Þá sagði Þór að einungis sé búið að gera upp helminginn af bankahruninu og því sé brýnt að gera afganginn upp með sanngjörnum hætti. Hann sagði ríkisstjórnina vera á hröðum flótta og að hún gæti ekki skorist undan því að taka af skarið í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×