Innlent

Klukkustund tók að landa fengnum

Þýskir ferðamenn ánægðir með feng sinn. Alexander Frank, sem setti í lúðuna, er annar frá hægri á myndinni. Mynd/Róbert Schmidt
Þýskir ferðamenn ánægðir með feng sinn. Alexander Frank, sem setti í lúðuna, er annar frá hægri á myndinni. Mynd/Róbert Schmidt
Klukkustund tók að landa um borð stórlúðu sem veiddist á sjóstöng fyrir vestan á sunnudag.

Að sögn Róberts Schmidt, leiðsögumanns hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Hvíldarkletti, voru það þýskir ferðamenn sem settu í lúðuna, en Alexander Frank og vinir hans settu í lúðuna á sjóstangaveiðibátnum Bobby 16 frá Flateyri norður af Deildinni.

„Þeir voru að veiðum á 42 metra dýpi þegar stöngin hans Alexanders bognaði skyndilega. Eftir klukkustundar viðureign náðu þeir svo að landa lúðunni um borð í bátinn,“ segir Róbert, en veður var gott þennan dag, sólskin og logn.

Óslægð var lúðan 108 kíló að þyngd og 203 sentímetra löng. Róbert segir þetta aðra stærstu lúðuna sem komið hafi á land á vegum Hvíldarkletts, en fyrirtækið á 22 báta á Flateyri og Suðureyri. Árið 2007 segir hann að veiðst hafi 240 sentímetra löng risa­lúða á sjóstöng og hún hafi vegið 175 kíló. „Sem var Evrópumet þar til í fyrra en þá veiddist 202 kílóa lúða í Noregi.“ - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×