Viðskipti innlent

Skattaafsláttur gagnast sprotafyrirtækjum lítið

Skattaafsláttur einstaklinga vegna kaupa á hlutafé í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum skilar litlu. „Þetta kerfi er meingallað," segir Eggert Claessen, framkvæmdastjóri fjárfestingasjóðsins Frumtaks. Hann gagnrýndi afsláttinn harðlega í málstofu Kauphallarinnar í síðustu viku og sagði um of lágar upphæðir að ræða. Farsælla væri að veita afslátt vegna kaupa í sjóðum, sem fjárfesti í nokkrum fyrirtækjum.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir mikla áhættu felast í kaupum á hlutafé sprotafyrirtækja og því hefði verið farsælla að veita fólki afslátt vegna fjárfestinga í sjóðum sem fjárfesta í sprotafyrir-tækjum. Slíkt var í gildi fyrir rúmum áratug og hleypt lífi í hlutabréfamarkaðinn. Hún bendir á að þegar frumvarpið var til umræðu í nefnd hafi margir lagt slíkt til.

„Ég sá fyrir mér sjóð sem fjárfestir í nokkrum fyrirtækjum en er lokaður í nokkur ár," segir Helga.

Lög um skattaafslátt vegna kaupa á hlutafé í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum tóku gildi á nýársdag. Þau fela í sér að einstaklingar geta fengið að hámarki þrjú hundruð þúsund króna skattaafslátt vegna kaupa á hlutafé nýsköpunarfyrirtækja og hjón tvöfalt meira. Fjárfestingin þarf að vera bundin í þrjú ár. Aðeins er um að ræða þátttöku í hlutafjáraukningu nýsköpunarfyrirtækja sem fengið hafa staðfestingu hjá Rannís.

Magnús Stefánsson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, er sérfræðingur hjá Rannís og vinnur að innleiðingu laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Hann segir flesta umsagnaraðila hafa bent á sjóðaleiðina en kann ekki skýringu á því hvers vegna sú leið var ekki farin.

Magnús hefur eftir stjórnendum sprotafyrirtækja að núverandi fyrirkomulag geti flækt rekstur fyrirtækjanna, það dragi úr flækjustiginu að hafa einn sjóð í hluthafahópnum heldur en allt upp undir hundrað manns sem tekið hafi þátt í hlutafjáraukningu fyrirtækisins.

„Ég held að það skili meiri árangri að hafa sjóðafyrirkomulag. Það er betra að hafa einn sjóð í hluthafahópnum í stað fimmtíu til hundrað einstaklinga."

Lög um stuðning við nýsköpunar-fyrirtæki verða endurskoðuð undir lok næsta árs.

- jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×